Alþjóða geislavarnafélagið, IRPA, gengst fyrir alþjóðlegum ráðstefnum á 4 ára fresti. Síðasta ráðstefna IRPA sú 11. var haldin í Madrid árið 2004.

Að þessu sinni var ráðstefnan haldin í Buenos Aires í Argentínu, dagana 20. – 24. október og var það í fyrsta sinn sem alþjóðleg IRPA ráðstefna er haldin í Suður-Ameríku.

Ráðstefnuna sóttu yfir 1600 sérfræðingar á ýmsum sviðum geislavarna frá meira en 90 löndum. Af þeim komu um 500 frá Suður Ameríku. Á ráðstefnunni voru lagðir fram og kynntir meira en 1500 pappírar um margvísleg viðfangsefni geislavarna. Haldnir voru 38 sérstakar málstofur og 12 sameiginlegar.

Við opnunarhátíð ráðstefnunnar var prófssor Christian Streffer frá Þýskalandi veitt svonefnd Sívert verðlaun fyrir rannsóknir sínar í geislalíffræði. Prófessor Streffer er einkum þekktur fyrir rannsóknir sínar á áhrifum geislunar á fóstur og fósturvísi sem höfðu mikil áhrif á þróun geislavarna.

Við lok ráðstefnunnar var prófessor K. Sankaranaraayanan frá Indlandi veitt Gullorða Sænska Vísindaakademíunnar fyrir rannsóknir sínar á erfðafræðilegum áhrifum jónandi geislunar en þær hafa haft mikil áhrif á þróun geislavarna.

Við slit IRPA 12 ráðstefnunnar lagði Dr. Abel Gonzales, forseti hennar m.a. áherslu á að vísindalegur grunnur geislavarna væri traustur þótt enn væri ósvarað mikilvægum spurningum um skaðleg áhrif lítillar geislunar yfir langan tíma.

Næsta ráðstefna Alþjóða Geislavarnafélagsins verður haldin í Glasgow árið 2012 og síðan í Suður- Afríku árið 2016.

Hægt er að nálgast fyrirlestra og annað varðandi ráðstefnuna á slóðinni:
http://www.irpa12.org.ar/.

 

SMM