Í lögum um geislavarnir nr. 44/2002 með áorðnum breytingum stendur nú í 9. grein:

„…Einstaklingum yngri en 18 ára eru óheimil afnot af sólarlömpum, í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum, á stöðum sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir…“;

Sjá: http://www.althingi.is/altext/138/s/1338.html

Þann 29. júlí 2009 tilkynnti Alþjóðlega rannsóknarstofnunin í krabbameinsfræðum (IARC) í Lyon, sem starfar á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), að útfjólublá geislun frá ljósabekkjum væri nú flokkuð sem krabbameinsvaldandi, en hún hafði áður verið flokkuð sem líklega krabbameinsvaldandi. Í tilkynningu stofnunarinnar kemur fram að hætta á húðkrabbameini eykst verulega ef notkun ljósabekkja hefst fyrir 30 ára aldur.

Í sameiginlegri yfirlýsingu geislavarnastofnana Finnlands, Svíþjóðar, Noregs og Íslands frá 11. nóvember 2009 var  lagt til að 18 ára aldurstakmark yrði  sett varðandi notkun ljósabekkja. Umfjöllun og yfirlýsinguna sjálfa er að finna hér.

Í samræmi við þessa þróun gerðu Geislavarnir ríkisins tillögu til heilbrigðisráðuneytisins um að ráðuneytið beitti sér fyrir innleiðingu 18 ára aldurstakmarks vegna notkunar sólarlampa í fegrunarskyni. Aldursmörkin tækju  til notkunar sólarlampa á stöðum sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, svo sem á sólbaðsstofum, heilsuræktarstöðvum og íþróttamiðstöðvum.

Síðustu áratugi hefur tíðni sortuæxla í húð hér á landi aukist verulega. Talið er líklegt að aukningin stafi einkum af notkun ljósabekkja, auk tíðari sólarlandaferða. Fram undir 1990 voru Íslendingar með lægstu tíðni sortuæxla í húð á Norðurlöndum en á síðustu árum hefur hún aukist mikið og eru íslenskar konur nú með hæstu tíðnina. Sólargeislun er tiltölulega lítil hér á landi, vegna legu landsins en notkun ljósabekkja hefur verið tvöföld eða þreföld miðað við nálæg lönd.

Eins og áður hafa heilbrigðisfulltrúar á hverjum stað eftirlit með rekstri sólbaðsstofa,og enn  eru í gildi ákvæði reglugerðar um sólarlampa þar sem þess er krafist að bekkir og perur séu í flokki UV-3, einnig að hver bekkur sé merktur með aðvörunarmiða og að veggspjald með leiðbeiningum Geislavarna ríkisins hangi uppi.

Geislavarnir ríkisins hafa útbúið nýtt veggspjald um ljósabekkjanotkun þar sem m.a. kemur fram að þeim sem eru yngri en 18 ára er óheimilt að nota ljósabekki á sólbaðsstofum. Þetta veggspjald var sent í tölvupósti á allar sólbaðsstofur á landinu fyrir áramót.

Veggspjald á PDF formi.