Árið 2009 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu Þjóðanna með einróma ályktun að 29. ágúst skyldi verða alþjóðlegur dagur gegn tilraunum með kjarnorkuvopn. Eru aðildarríki í ályktuninni sérstaklega hvött til að efla vitund fólks og fræðslu um afleiðingar tilraunasprenginga og nauðsyn þess að þeim verði endanlega hætt. Framkvæmdastjóri SÞ, Ban Ki-moon, hefur sent frá sér yfirlýsingu af þessu tilefni þar sem hann m.a. hvetur þau átta ríki sem enn eiga eftir að fullgilda alþjóðasáttmála um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn (CTBT) til að gera svo án tafar.

Dagsetningin er ekki tilviljun en segja má að þennan dag árið 1949 hafi kjarnorkuvopnakapphlaup stórveldanna tveggja hafist fyrir alvöru, þegar Sovétmenn sprengdu fyrstu kjarnorkusprengju sína á Semipalatinsk tilraunasvæðinu í Kazakstan. Það var síðan 29. ágúst árið 1991 að svæðinu var endanlega lokað eftir yfir 450 tilraunasprengingar þar.

Bandaríkjamenn höfðu sprengt sína fyrstu kjarnorkusprengju árið 1945 en samtals hafa verið gerðar vel yfir 2000 tilraunasprengingar í heiminum. Síðast gerðu N-Kóreumenn slíkar tilraunir árin 2006, 2009 og 2013.

Helsta driffjöður alþjóðasamfélagsins gegn kjarnorkutilraunum er Comprehensive Nuclear-Test-Ban Treaty Organisation (CTBTO) en sú stofnun hefur umsjón með alþjóðasáttmála um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn. Einn veigamesti hlutinn í starfi þeirrar stofnunar er uppbygging og rekstur hnattræns eftirlitskerfis sem fylgjast á með að ekki sé brotið á sáttmálanum. Geislavarnir ríkisins annast rekstur einnar mælistöðva eftirlitskerfisins.

Frekari fróðleik má t.d. nálgast á kynningarsíðu CTBTO.