Ísland var meðflytjandi að ályktunum um eflingu öryggisráðstafana til að hindra útbreiðslu kjarnavopna (NPT-samningurinn), aðgerðir til að efla alþjóðlegt samstarf í málum sem varða kjarnöryggi, geislavarnir, flutning geislavirkra efna og meðferð geislavirks úrgangs. Ísland var einnig meðflytjandi að ályktun sem fjallar um auknar aðgerðir til að varna hryðjuverkum sem beinast að kjarniðnaði eða stöðum þar sem geislavirk efni eru notuð.

Í tengslum við ársfundinn voru haldnir ýmsir hliðarfundir svo sem um geislavarnir sjúklinga og takmarkanir á flutningi geislavirkra efna. Einnig var haldin ráðstefna um hlutverk IAEA á komandi árum auk árlegs samráðsfundar yfirmanna geislavarna- og kjarnöryggisstofnana aðildarlanda IAEA.

IAEA sinnir vísinda-, tækni- og eftirlitshlutverki með kjarnatækni á breiðum grunni og mótar alþjóðlegar reglur á þessu sviði. Stofnunin fer með alþjóðlega samninga um geislunarmál, m.a. sem varða viðbúnað við geislaslysum og meðferð á geislavirkum úrgangi. Þar sem kjarnorkuver og kjarnorkuúrgangsstöðvar eru í nærliggjandi löndum er mikilvægt að Ísland geti fylgst með að ströngum öryggisreglum sé framfylgt.

Viðbúnaðarþátturinn í starfsemi IAEA er mikilvægur ef geislasys verður. Þá gegnir jónandi geislun mikilvægu hlutverki á Íslandi eins og í öðrum aðildarlöndum IAEA, m.a. við greiningu og meðferð sjúkdóma. Framlag stofnunarinnar til þróunarmála er mikilvægt, en það snýr að því að aðstoða þróunarríki við að nota kjarnatækni til að bæta lífskjör, m.a. með aukinni framleiðni í landbúnaði og baráttu við sjúkdóma. Síðast en ekki síst gegnir stofnunin mikilvægu eftirlitshlutverki við að hefta útbreiðslu kjarnavopna samkvæmt NPT-samningnum.

Nánari upplýsingar um ársfundinn má finna á: http://www.iaea.org/About/Policy/GC

SMM