Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, IAEA, hélt 65. ársfund sinn í Vín daganna 20. – 24. september síðastliðinn. Aðildarríki IAEA eru 173 og sóttu fulltrúar þeirra fundinn, auk fulltrúa ýmissa félagasamtaka og fjölmiðla. Á ársfundinum voru samþykktar margar ályktanir um hin ýmsu viðfangsefni stofnunarinnar og áherslur næstu ára.

Ísland tók virkan þátt í gerð ályktunar um geislavarnir, flutning geislavirkra efna og viðbúnað og var einnig meðflytjandi að ályktunum um hagnýtingu kjarntækninnar á ýmsum sviðum. Einnig voru samþykktar ýmsar ályktanir um m.a. kjarnorkumál Íran og Norður-Kóreu. Ísland var meðflytjandi að þeim ályktunum.

Í tengslum við ársfundinn voru haldnir ýmsir hliðarfundir auk kynninga frá ýmsum löndum á kjarntækni og geislavörnum. Einnig var haldinn vísindafundur (scientific forum) um beitingu kjarntækni í baráttunni við sjúkdóma eins og Covid-19 sem borist geta úr dýrum í menn, auk árlegs samráðsfundar forstjóra kjarnöryggis- og geislavarnastofnana aðildarlanda IAEA.

Þórður Ægir Óskarsson sendiherra flutti ræðu fyrir Íslands hönd á ársfundinum. Hann lagði ríka áherslu á að það væri skylda aðildarríkjanna að virða þá sátt sem náðst hefur meðal þjóða um að kjarnorka skuli nýtt í friðsamlegum tilgangi og tefla ekki heimsfriði í tvísýnu með þróun og framleiðslu kjarnavopna. Gerði hann sérstaklega að umræðuefni þróun mála í Íran og gagnrýndi kjarnavopnatilraunir Norður-Kóreu sem væri alvarleg ógnun við frið og stöðugleika.  Hann fagnaði því að stofnunin leggur áherslu á að nýta kjarnatækni til þess að takast á við aðsteðjandi umhverfisógnir, þeirra á meðal er plastmengun í hafinu, sem er einkar mikilvægt fyrir fiskveiðiþjóðir.

Auk Þórðar Ægis sátu aðalfundinn þau Sigurður M. Magnússon forstjóri Geislavarna ríkisins og Kristín A. Árnadóttir fastafulltrúi Íslands hjá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni.