Alþjóða geislavarnaráðið (ICRP, International Commission on Radiological Protection) hefur sett drög að 3 nýjum ritum á vefsetur sitt til umsagnar. Þótt efni þessara rita öðlist ekki gildi fyrr en þau hafa verið útgefin eftir endurskoðun byggða á hugsanlegum umsögnum, þá er efnið fróðlegt og ósennilegt að það taki miklum breytingum.

Fyrsta ritið er Biological and Epidemiological Information on Health Risks Attributable to Ionising Radiation: A Summary of Judgements for the Purposes of Radiological Protection of Humans. (Foundation Document)
Það tekur saman þann grunn sem mat á áhættu fólks vegna jónandi geislunar byggir á. Lýst er hvaða líffræðileg og faraldsfræðileg þekking er hér að baki.

Annað af þessum ritum er Basis for Dosimetric Quantities Used in Radiological Protection. Það tekur saman þá mælifræði sem geislavarnir byggja á. Frumstærðirnar eru hreinar eðlisfræðilegar mælistærðir, en síðan eru innleiddar ýmsar afleiddar stærðir til þess að lýsa betur líffræðilegum áhrifum og því mati á áhættu sem geislavarnir snúast um.

Þriðja ritið er The Concept and Use of Reference Animals and Plants for the purposes of Environmental Protection. Það fjallar um val á lífverum til að nota sem viðmiðanir við geislavarnir umhverfis. Til þessa hefur verið miðað við að þær geislavarnir sem vernd fólks er miðuð við tryggi einnig fullnægjandi vernd lífríkisins, enda eru kröfur varðandi vernd fólks mjög strangar. Ýmsum finnst þó að þetta sé ekki sjálfgefið og að form geislavarna umhverfis þurfi einnig að samræma við form verndar umhverfis vegna annarra áhættuþátta. Þetta rit kynnir hugmyndir um hvernig beita megi geislavörnum með formlegri hætti við umhverfisvernd.

Unnt er að gefa umsagnir um ritin til 24 júlí 2005, en eftir það má búast við að þessi drög verði tekin af vefsetri ICRP. Eftir að drög hafa verið samþykkt til útgáfu, þá eru þau birt í annálum ICRP. Áskrift að slíkum ritum er seld. Vegna landsáskriftar Íslands að fjölda vísindarita (sbr. hvar.is), þá má hinsvegar nálgast nýlega árganga rita ICRP endurgjaldslaust á:
Rit ICRP hjá Science Direct

Allir sem hafa áhuga á efni þessara rita eru hvattir til þess að nálgast drögin á meðan þau eru aðgengileg á vefsetri ICRP og ná síðan endanlega útgáfu ritanna eftir að þau hafa verið gefin út.

Vefsíða Elsevier um ICRP
Heimasíða ICRP