Á síðustu 5 árum hafa mikil umskipti átt sér stað á myndgreiningardeildum landsins. Áður voru notaðar röntgenfilmur en í dag eru rannsóknir skráðar á stafræna miðla og vistaðar með stafrænum hætti. Um síðustu áramót var áætlað að 95% framkvæmdra myndgreiningarannsókna hérlendis væru á stafrænu formi. Stærri myndgreiningadeildirnar hafa einnig lýst því yfir að stutt sé í það að deildirnar verði einnig pappírslausar, þannig að beiðnir um rannsóknir, sem og svör, verði á rafrænu formi. Samfara þessari þróun hefur aðgengi tilvísandi lækna og annarra deilda að niðurstöðum rannsókna stóraukist og batnað. Þetta aðgengi er þó enn sem komið er frekað takmarkað á milli myndgreiningardeilda og sérstaka athygli vekur að engar tengingar eru t.d. á milli stærstu myndgreiningardeildanna á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og Læknisfræðilegrar Myndgreiningar ehf.

Í lok síðasta árs höfðu Geislavarnir ríkisins frumkvæðið að því að efna til viðræðna við forstöðulækna þessara myndgreiningardeilda. Geislavarnir áttu einnig frumkvæði að viðræðum við Landlæknisembættið og Heilbrigðisráðuneytið, um mikilvægi þess að komið yrði á viðeigandi og viðunandi tengingum á milli þessara stóru myndgreiningardeilda. Ef vel tekst til gæti það orðið fyrsta skrefið í tengingu allra myndgreiningadeilda á landinu. Vel var tekið í hugmyndir stofnunarinnar og í byrjun janúar var stofnaður undirbúningshópur til þess að vinna að frekari framgangi málsins. Í þessum undirbúningshópi eru Ásbjörn Jónsson, sviðsstjóri myndgreiningarþjónustu Landspítala Háskólasjúkrahúss, Einar Steingrímsson, röntgenlæknir hjá Læknisfræðilegri Myndgreiningu og Guðlaugur Einarsson, sviðsstjóri hjá Geislavörnum ríkisins.

Kannað verður til hlítar hvað þurfi að gera til þess að koma á samræmingu gagnagrunna og tengingum á milli deilda, um leið og gætt væri að öllum reglum um gagnaöryggi og persónuvernd. Fyrsti þáttur verkefnisins verður að skoða stöðu mála á milli Landspítala Háskólasjúkrahúss og Læknisfræðilegrar Myndgreiningar og hvað þurfi að gera til þess að koma þar á viðeigandi tengingum. Þegar lausnir verða komnar á tengingu á milli þessara tveggja deilda verður e.t.v. einnig kominn grundvöllur að tengingum á milli annarra deilda landsins.

Undirbúningshópurinn hefur m.a. skoðað samræmingu á rannsóknarnúmerum og rætt um kosti þess og galla að koma á fót miðlægri geymslu rannsóknargagna, þar sem allar myndgreiningar- rannsóknir landsmanna eru vistaðar, ásamt upplýsingum um framkvæmd þeirra og sjúkdómsgreiningu. Samkvæmt reglugerðum þarf að geyma allar myndrannsóknir í allt að 10 ár. Slíkar myndgeymslur eru bæði kostnaðarsamar og krefjast mikils öryggis hvað varðar geymslu, afritun og aðgengi að þeim gögnum sem þar eru..

Vænta má frekari frétta um framgang þessa verkefnis.