Geislavarnir ríkisins munu á þessu ári taka þátt í norrænu verkefni um afleiðingar alvarlegs kjarnorkuslyss á Norðurlöndum. Verkefnið er styrkt af NKS (Norrænum kjarnöryggisrannsóknum).

Náið samstarf hefur verið meðal Norðurlandanna um viðbúnaðartengd rannsóknaverkefni áratugum saman. Verkefnið NORCON (Nordic Nuclear Accident Consequence Analysis)  snýst um að greina afleiðingar alvarlegs kjarnorkuslyss á Norðulöndunum. Áætlað er að verkefnið standi yfir í tvö ár.

Fyrri hluti verkefnisins snýst um ímyndað slys í kjarnorkuveri og verður áhersla lögð á að meta hvaða geislavirk efni gætu borist í umhverfið við slíkt slys. Hvert land mun síðan reikna út dreifingu þeirra miðað við mismunandi veðurskilyrði og verða niðurstöður landanna bornar saman. 

Í seinni hlutanum, árið 2015, verður lagt mat á hvaða afleiðingar niðurstöður fyrri hluta verkefnisins um dreifingu geislavirkra efna eftir kjarnorkuslys geta haft. Metið verður hver áhrifin gætu orðið til lengri tíma (í allmörg ár) og einnig hvert geislaálag almennings gæti orðið auk þess sem áhrif á umhverfið og samfélagið í heild verða metin. Loks verður lagt mat á til hvaða aðgerða löndin gætu þurft að grípa í kjölfar kjarnorkuslyssins, til dæmis takmarkana á útiveru og neyslu matvæla frá svæðum þar sem geislavirkni er mikil.

Niðurstöður verkefnisins verða birtar á heimasíðu NKS

Eitt af fáum kjarnorkuverum á Norðurlöndum. Þetta er í Ringhals í Svíþjóð.

Eitt af fáum kjarnorkuverum á Norðurlöndum. Þetta er í Ringhals í Svíþjóð.