Hér er fjallað um öfluga leysa, öfluga leysibenda og IPL-tæki (e. intense pulsed lasers), sbr. skilgreiningar í reglugerð nr. 171/2021. Til hægðarauka er orðið leysir hér notað um öfluga leysa og öfluga leysibenda.

Leysar eru flokkaðir eftir áhættunni sem fylgir notkun þeirra. Hér má finna fræðsluefni um flokkun leysa. Öflugir leysar geta valdið alvarlegum augnskaða og bruna á húð ef fyllsta öryggis er ekki gætt. Því má aldrei horfa beint í leysigeislann eða beina honum að auga. Öflugir leysar geta einnig valdið íkveikju.

Hættan á augnskaða fer eftir afli leysis, bylgjulengd, fjarlægð frá auga, hversu lengi augað verður fyrir geislanum og hversu dreifður geislinn er. Ef geislinn er ekki samfelldur heldur púlsaður er hættan einnig háð lengd og orku púlsanna.

Ekki eru allir leysar skaðlegir. Þeir sem taldir eru öruggir undir öllum venjulegum kringumstæðum eru í flokki 1. Slíka leysa má nota í leikföng. Það á alltaf að vera merking á leysum með upplýsingum um hvaða flokki þeir tilheyra.

Augnskaði af völdum leysigeisla

Grundvallarreglan til að komast hjá augnskaða af völdum öflugs leysis er að horfa aldrei í leysigeislann. Hann getur valdið langvarandi augnskaða í formi brunaskemmda í aftari hluta augans, m.a. á sjónhimnunni, og leitt til sjónmissis. Styrkur leysa í flokki 4 er nægilegur til að valda skaða á augum þegar horft er á endurvarp leysigeislans, jafnvel við dreift endurvarp (e. diffuse reflection) geislans af möttu yfirborði.

Húðskaði af völdum leysigeisla

Öflugir leysar geta valdið bruna á húð vegna upphitunar af völdum leysigeislans.

Skaði af völdum IPL-tækja

IPL-tæki geta valdið sambærilegum skaða og leysar. Augað getur hlotið skaða af sterku ljósi frá IPL-tækjum og húðin getur brunnið.

Notkun öflugra leysa og IPL-tækja

Öflugir leysar eru m.a. notaðir í læknisfræðilegum tilgangi en einnig í fegrunarskyni til að t.d. fjarlægja húðflúr, hár eða hrukkur. Dæmi um notkun IPL-tækja er háreyðing í fegrunarskyni.

Hafa skal varann á þegar gengist er undir meðhöndlun með öflugum leysi eða IPL-tæki. Notkun öflugra leysa og IPL-tækja skal vera á ábyrgð læknis með viðeigandi sérmenntun.

Mikilvægt er að sá sem framkvæmir slíka meðhöndlun hafi fullnægjandi þekkingu og þjálfun á öryggisþáttum við notkun tækisins og mögulegri skaðsemi sem það getur valdið.

Notkun aflmikilla leysa við tónleikahald og aðrar skemmtanir tíðkast einnig en slík notkun er leyfisskyld fyrir leysa í flokki 3B og 4 og leysibenda í flokki 3R, 3B og 4. Slíkir leysar geta valdið skaða í augum og á húð, ásamt því að geta valdið íkveikju, og þeim má alls ekki beina að fólki.

Hlekkir á tengt efni:

Umsóknareyðublað um notkun öflugs leysis, leysibendis eða IPL-tækis, ásamt tilkynningu á innflutningi.

Reglugerð um innflutning og notkun leysa, leysibenda og IPL-tækja.

Fræðsluefni um flokkun leysa og leysibenda á íslensku.

Ýmsar fróðlegar upplýsingar um leysa og öryggisatriði við notkun þeirra er að finna á http://www.lasersafetyfacts.com/

Upplýsingar um flokkun leysa og mögulega skaðsemi: http://www.lasersafetyfacts.com/laserclasses.html

Ýmsar fróðlegar upplýsingar um ábyrga og örugga notkun leysibenda er að finna á http://www.laserpointersafety.com/