Lokaskýrsla umfangsmikillar rannsóknar á áhrifum mikillar rafsegulgeislunar eins og notuð er í 2G og 3G farsímum á rottur og mýs er komin út. Niðurstöður rannsóknarinnar sem fór fram á vegum opinberra aðila í Bandaríkjunum, National Toxicology Program, sjá ntp.niehs.nih.gov, eru að karlrottur sem urðu fyrir mikilli 2G og 3G rafsegulgeislun sýndu aukna tíðni krabbameina í hjarta. Einnig þóttu sjást vísbendingar um að krabbamein í heila og nýrnahettum tengdust geisluninni.

Kvenrottur og mýs af báðum kynjum voru einnig geisluð en óljóst er hvort krabbamein greind í þeim tengjast geisluninni.

Ekki er hægt að yfirfæra geislunina sem dýrin urðu fyrir beint á þá geislun sem fólk verður fyrir þegar það talar í farsíma. Dýrin urðu fyrir geislun á allan líkamann en fólk verður fyrst og fremst fyrir geislun á þann hluta líkamans sem næstur er símanum. Dýrin voru geisluð í margfalt lengri tíma en þegar fólk talar í síma.

Minnsta geislun í rannsókninni er sambærileg við viðmiðunarmörk sem sett hafa verið við farsímanotkun. Yfirleitt er geislunin sem fólk verður fyrir mun lægri en viðmiðunarmörkin. Mesta geislunin í rannsókninni var um 4 sinnum hærri en viðmiðunarmörkin.

Rannsóknin, sem kostaði um 30 milljónir dollara og stóð í meira en 10 ár, er umfangsmesta rannsókn sem gerð hefur verið á heilsufarsáhrifum rafsegulgeislunar á 2G og 3G fjarskiptatíðni á dýr en 2G og 3G farsímakerfi voru algengust þegar rannsóknin fór fram. Styrkur rannsóknarinnar er að vitað er nákvæmlega hve mikilli geislun dýrin urðu fyrir. Það er ekki hægt við rannsóknir á hugsanlegum áhrifum farsímageislunar á fólk, sem oft byggja á mati á farsímanotkun.

Dýrin voru í sérhönnuðum búrum og geislunin á rottum hófst þegar á fósturstigi en á músum þegar þær voru 5 – 6 vikna gamlar og stóð í allt að 2 ár. Dýrin voru geisluð í 9 klukkustundir á dag. Hver geislun stóð í 10 mínútur og síðan var 10 mínútna hlé áður en næsta geislun hófst.

Rannsóknin beindist ekki að rafsegulgeislun af þeirri tíðni sem notuð er við þráðlaus net eða 5G farsímakerfi.

Ýmsan frekari fróðleik má finna m.a. hér: