Í kjölfar ráðstefnu Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um geislavarnir í læknisfræði, sem haldin var í Bonn í Þýskalandi dagana 3. til 7. desember 2012, hefur verið birt ákall um aðgerðir (Bonn Call-for-Action).

Ofangreind ráðstefna bar yfirskriftina „International Conference on Radiation Protection in Medicine – Setting the Scene for the Next Decade” og sóttu hana rúmlega 530 fulltrúar frá 77 löndum og 16 alþjóðasamtökum (sjá frétt á vef Geislavarna 17. apríl sl.).  Markmið ráðstefnunnar var m.a. að greina hvar helst væri misbrestur í geislavörnum miðað við þær aðferðir sem notaðar eru í dag og hvar hægt væri að beita öðrum og bættum aðferðum.  Fjallað var um helstu framfarir í geislavörnum á öllum sviðum notkunar, myndgreiningar, kjarnlæknisfræði og geislameðferðar og reynt að draga saman hvað hefur áunnist og hver eigi að vera helstu verkefnin til framtíðar.

Á vefsetri IAEA um geislavarnir sjúklinga hefur nú verið birt ítarleg aðgerðaáætlun og hvatning til allra hlutaðeigandi.

Markmiðið með ákallinu um aðgerðir er m.a. að:

  1. styrkja almennt geislavarnir sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna
  2. hámarka gagnsemi með sem minnstri áhættu fyrir alla sjúklinga, með öruggri og viðeigandi notkun jónandi geislunar í læknisfræði
  3. styðja við fulla samþættingu geislavarna við starfsemi innan heilbrigðiskerfisins
  4. bæta og styrkja umræður um gagnsemi og áhættu við sjúklinga og almenning
  5. efla öryggi og gæði í læknisfræðilegri notkun jónandi geislunar

Aðgerðaáætlunina má finna í heild sinni hér

Vefsetur IAEA um geislavarnir sjúklinga