Ljósabekkir sem seldir eru á Evrópska efnahagssvæðinu þurfa að uppfylla kröfur um öryggi sem settar eru fram í evrópskum staðli EN 60335-2-27. Staðallinn nær meðal annars til öryggisþátta vegna útfjólublárrar geislunar (UV- geislunar). Spænsk stjórnvöld hafa bent á galla í staðlinum og í framhaldi af því var sett á fót vísindanefnd til að svara ýmsum spurningum varðandi áhrif útfjólublárrar geislunar í ljósabekkjum.

Þessi nefnd hefur birt fyrstu drög að áliti sínu til umsagnar fyrir 6. mars 2006. Þetta álit í endanlegri útgáfu hefur mikið vægi því að það verður notað af Evrópusambandinu til að setja fram kröfur til evrópsku rafstaðlastofnunarinnar CENELEC við endurskoðun staðalsins. Álitið er einnig áhugavert fyrir alla áhugamenn um UV- geislun þar sem það lýsir stöðu núverandi þekkingar á þessu sviði.

Vísindanefndin fer yfir helstu rannsóknir á tengslum húðkrabbameins við notkun ljósabekkja og leggur mat á þær. Hún telur margt vera á huldu um þetta samband og vill að reglur miðist við það sem er vitað, t.d. um að fólk með ljósa húðgerð sé í áhættuhópi og að tímamörk í ljósabekkjum séu miðuð við þekkt viðmið til að forðast bruna hvort sem hann stafar af UVA eða UVB geislun. Hún telur enga geislun vera örugga en reynir engu að síður að leggja tölulegt mat á aukna dánartíðni t.d. við að nota ljósabekki 10-20 sinnum á ári.

Heildarniðurstaða nefndarinnar í þessum drögum er að notkun ljósabekkja í fegrunarskyni hvort sem notuð er UVA og/eða UVB geislun sé líkleg til að auka hættu á illkynja sortuæxlum.

Einnig er það niðurstaða nefndarinnar, að fólki í þekktum áhættuhópum vegna húðkrabbameins skuli ráðlagt að nota ekki ljósabekki. Í þeim hópi er:

1) fólk undir 18 ára aldri

2) fólk með húðgerð I og II og með freknur

3) fólk með marga fæðingarbletti og

4) fólk sem á ættingja sem hafa fengið sortuæxli.

Öllum er frjálst að senda nefndinni umsagnir um drögin. Búast má við viðbrögðum úr mörgum áttum, m.a. munu Norrænar geislavarnastofnanir senda inn sameiginlegt álit sem verður gert opinbert.

Tenglar:

Álit vísindanefndar Evrópusambandsins um ljósabekki

Norrænar ráðleggingar um ljósabekki, febrúar 2005

Frétt Geislavarna um staðal