Viðbúnaður Geislavarna ríkisins miðast við að geta brugðist við ógnum frá geislun sem gætu ógnað lífi, heilsu eða umhverfi. Geislavá vegna notkunar geislavirkra efna á Íslandi getur m.a. skapast vegna slysa, meðhöndlunar af vanþekkingu og förgunar af vangá. Geislavá á Íslandi, bein eða óbein, getur einnig orðið vegna t.d. kjarnorkuslysa í lögsögu Íslands eða erlendis. Slys í kjarnorkuveri í nágrannalandi myndi vart hafa merkjanlegar heilsufarslegar afleiðingar hérlendis vegna þess að engin kjarnorkuver eru nærri Íslandi.Öðru máli getur gegnt um slys í kjarnorkuknúnu skipi eða kafbáti við Íslandsstrendur. Þá gætu geislavirk efni borist á land í þeim mæli að grípa þyrfti til gagnaðgerða til að takmarka heilsufarslegar afleiðingar.

Geislavarnir byggja viðbrögð sín við geislavá m.a. á viðmiðum og leiðbeiningum IAEA sem mæla með að viðbúnaður við geislavá sé samþættur öðrum viðbúnaði í hverju ríki allt frá einstökum rekstraraðilum til viðbragðsaðila og stjórnvalda.

Viðbrögð við geislavá geta m.a. falið í sér að meta sem skjótast afleiðingar og veita ráðgjöf til stjórnvalda, viðbragðsaðila, almennings eða hagsmunaaðila. Matið getur byggst á gagnaöflun og/eða mælingum Geislavarna ríkisins.

Virkt eftirlit er með öllum geislavirkum lindum á Íslandi. Séð er til þess að geymslustaðir þeirra séu læstir og búnir brunavörnum. Lög sem gilda um flutning geislavirkra efna krefjast þess að bílar sem það gera séu merktir og búnir neyðarbúnaði svo sem varúðarskiltum og handslökkvitækjum.

Mögulegar uppsprettur geislavár á Íslandi eru færri en hjá nágrannaþjóðunum.  Engir kjarnakljúfar eru hér á landi og eingöngu takmarkað magn af geislavirkum efnum er í notkun. Styrkur flestra geislalinda er tiltölulega lítill og eftirlit er mjög nákvæmt, hver einasta geislalind er skráð og sætir reglubundnu eftirliti.

Á vegum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar hafa verið gerðir sáttmálar um gagnkvæmar tilkynningar (IAEA Convention on Early Notification of a Nuclear Accident) og aðstoð (IAEA Convention on Assistance in the Case of a Nuclear Accident or Radiological Emergency).  Ísland er aðili að þessum sáttmálum. Sá fyrri skuldbindur ríki til að tilkynna um kjarnorkuslys innan landamæra sinna. Sá síðari gefur ríkjum rétt til að leita aðstoðar komi til geislunarslyss.  Sáttmálinn tekur til geislunarslysa almennt (hvort sem rótin er kjarnorka eða geislavirk efni af öðrum toga) og aðstoðin sem unnt er að fara fram á getur snúist um tækjabúnað, mannafla, sérhæfða læknisaðstoð og upplýsingar. Eitt ríki getur t.d. krafið annað ríki um upplýsingar á grundvelli sáttmálans, telji það að í hinu ríkinu hafi orðið einhver sá atburður sem geti snert hagsmuni fyrirspurnarríkis (t.d. vegna heilsufarslegra eða efnahagslegra afleiðinga). Aðild að þessum sáttmála er því  mjög mikilvæg.

Geislavarnir hafa árum saman átt í nánu samstarfi við systurstofnanir á Norðurlöndum. Á síðari árum hefur IAEA styrkt viðbúnaðarmiðstöð sína og eru reglulegar prófanir á virkni samskipta milli aðildarríkja og IAEA gerðar á vegum hennar, auk viðameiri æfinga.