Alþjóðadagur öryggis sjúklinga er 17. september ár hvert. Í ár er dagurinn helgaður öryggi þungaðra kvenna og nýbura en öryggi við notkun geislunar er eitt af mörgu sem þarf að huga vel að.

Þegar þungaðar konur og nýburar þurfa á rannsóknum að halda þar sem notuð er jónandi geislun er mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn þekki vel, og séu tilbúnir að ræða, ávinning og áhættu sem fylgir rannsókn.

Í riti Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) Communicating radiation risks in paediatric imaging er bent á leiðir til að ræða áhættu vegna geislunar.

Hér á vef Geislavarna er fjallað er nokkuð ítarlega um röntgengeislun og meðgöngu.

Það er mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn viti af þungun ef rannsókn með jónandi geislun er fyrirhuguð vegna þess að þá þarf að meta áhættu og ávinning bæði móður og fósturs.

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) hefur gert stutt myndband  þar sem útskýrt er af hverju sérstakrar aðgæslu er þörf við myndgreiningu þungaðra kvenna og einnig veggspjald til að auka árvekni. Á vef IAEA er einnig hægt að finna svör við ýmsum spurningum sem vakna þegar þungaðar konur þurfa að fara í rannsóknir með röntgengeislum eða geislavirkum efnum.

Sérfræðingar Health Physics Society hafa í gegnum tíðina svarað mörgum spurningum almennnings um geislun og geislavarnir.  Þar er sérstakur flokkur tileinkaður þungun og geislun.

Þungaðar konur mega ekki fara á mis við nauðsynlegar rannsóknir og þær eiga líka að geta treyst því að geislun á fóstur sé alltaf eins lítil og unnt er með tilliti til aðstæðna.

Lesið meira um World Patient Safety Day 2021 á vef WHO.