Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins, tók nýlega við formennsku í ráðgjafanefnd Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar, IAEA, um geislavarnir. Af því tilefni var rætt við hann í fréttskýringaþætti Ríkisútvarpsins, laugardagsþættinum, síðast liðinn laugardag (21. maí). Viðtalið var um 15 mínútna langt og var þar fjallað um IAEA, hlutverk stofnunarinnar og hvaða hlutverki Íslendingar gegna og hafa gegnt þar.

Alþjóða kjarnorkustofnunin, IAEA, var stofnuð 1957 og er ein undirstofnana Sameinuðu þjóðanna. Hún hefur beitt sér fyrir friðsamlegri beitingu kjarntækni, t.d. við matvælaframleiðslu og hafa Íslendingar gengt þar mikilvægum störfum, má þar sérstaklega nefna þá Björn Sigurbjörnsson og Guðna Harðarson. Meginhlutverk stofnunarinnar er þó samkvæmt alþjóðasamningum að stuðla að og hafa eftirlit með að notkun kjarnorku og kjarntækni sé með öruggum hætti. IAEA heldur einnig uppi eftirliti sem miðar að því að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna.

Utanríkisráðuneytið fer með málefni IAEA hérlendis. Prófessor Magnús Magnússon sinnti áður tengslum við stofnunina fyrir hönd ráðuneytisins, Geislavarnir ríkisins sinna nú þessum tengslum. Nefndin sem Sigurður M. Magnússon stýrir er ein meginnefnda IAEA og henni er ætlað að veita stofnuninni ráðgjöf um þau mál sem snerta geislavarnir.

Hlýða má á viðtalið á vefsíðu ríkisútvarpsins í 2 vikur eftir að því var útvarpað:

http://servefir.ruv.is/dagskra/streaming/default.asp?channel=2&date=2005-05-21&file=4217302