Opnað hefur verið fyrir aðgang að fyrirlestrum og helstu niðurstöðum ráðstefnu Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) um geislavarnir í læknisfræði, sem haldin var í Bonn í Þýskalandi dagana 3. til 7. desember 2012.

Ráðstefnan bar yfirskriftina „International Conference on Radiation Protection in Medicine – Setting the Scene for the Next Decade” og sóttu hana rúmlega 530 fulltrúar frá 77 löndum og 16 alþjóðasamtökum.  Á ráðstefnunni var rifjuð upp aukin þátttaka IAEA í uppbyggingu geislavarna vegna notkunar í læknisfræði á heimsvísu, sem hófst í kjölfar ráðstefnu í Malaga árið 2001 og verkáætlunar sem unnið hefur verið eftir síðan.  Markmið ráðstefnunnar var m.a. að greina hvar helst væri misbrestur í geislavörnum miðað við þær aðferðir sem notaðar eru í dag og hvar væri hægt að beita öðrum og bættum aðferðum.  Fjallað var um helstu framfarir í geislavörnum á öllum sviðum notkunar, myndgreiningar, kjarnlæknisfræði og geislameðferðar og reynt að draga saman hvað hefur áunnist og hver eigi að vera helstu verkefnin til framtíðar. 

Dagskrána má sjá hér (pdf skrá).

Aðgangur að fyrirlestum er hér (vefsíða).

Væntanlegt er ráðstefnurit með öllum ráðstefnuframlögum og veggspjöldum og verður sagt frá því hér þegar þar að kemur.