Framkvæmd geislameðferðar, augngeislaskammtar og leiðbeiningar um val á rannsóknum voru efst á baugi á alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var á vegum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) nú í desember um geislavarnir í læknisfræði.

Yfirskrift ráðstefnunnar var RADIATION PROTECTION IN MEDICINE, Achieving Change in Practice.  Tilgangur ráðstefnunnar var að meta árangur af sameiginlegu ákalli IAEA og WHO um aðgerðir í geislavörnum sem sett var fram árið 2012 (sjá frétt þar um á vef Gr).  Þar var sett fram aðgerðaáætlun í 10 þrepum undir heitinu Bonn-ákallið (Bonn Call for Action, sjá einnig fyrri frétt á vef Gr). Fyrir hvert og eitt tíu þrepa Bonn-ákallsins var rætt og rýnt hvað hefði áunnist og hvað helst vantaði.

Fjölmargar stofnanir og félagasamtök hafa brugðist við Bonn-ákallinu og margt hefur verið gert en á ráðstefnunni var kastljósinu ekki síst beint að því hvar hægt væri að gera betur.  Almennt var álitið að beina þyrfti sjónum að því að minnka geislun á heilbrigðan vef hjá sjúklingum í geislameðferð, vernda augu fyrir geislun í inngripsrannsóknum og að innleiða leiðbeiningar fyrir tilvísandi lækna um val á rannsóknum.  Fram kom að ákvarðanastuðningskerfi fyrir lækna eru nú þegar í boði en auka þyrfti notkun þeirra.  Ef læknar taka réttar ákvarðanir um val á rannsóknum minnkar það ónauðsynlega notkun geislunar.

Einnig var rætt um hina geysihröðu þróun tækninnar við læknisfræðilega notkun geislunar, margvísleg verkefni á sviði geislavarna sem fylgja henni og nauðsyn þess að allir vinni saman að því að notkun geislunar verði hagkvæm og örugg fyrir bæði sjúklinga og starfsmenn.

Ráðstefnan var skipulögð í samstarfi við 16 stofnanir og heppnaðist afar vel, hana sóttu yfir 500 manns frá 97 löndum og um 200 aðsendar greinar voru samþykktar til birtingar.