Ráðstefnuna sóttu um fimmtíu fulltrúar frá nítján ríkjum, auk Evrópusambandsins. Á ráðstefnunni voru ræddar ýmsar hliðar viðbúnaðartengdrar skimunar eftir geislavirkum efnum. Umræðan snerist bæði um skipulagsþætti og tæknileg atriði.  Kynning Bandríkjamanna á sinni tækni vakti verðskuldaða athygli.  Finnska geislavarnastofnunin, STUK, var með ítarlegustu kynningu Evrópuþjóða á mælitækni.  Kynntar voru ýmsar lausnir sem stofnunin hefur þróað og í kynningunni var einnig rík áhersla á árangursríkt þróunarsamstarf við Geislavarnir ríkisins.  Sigurður Emil Pálsson, Geislavörnum ríkisins, kynnti einnig nýja vefútgáfu leiðbeiningarits IAEA, WHO, PAHO og CTIF fyrir viðbragðsaðila.  Þessi nýja vefútgáfa verður kynnt alþjóðlega á næstunni og var Sigurður Emil annar tveggja sérfræðinga sem IAEA kallaði til ráðgjafar, en hugmyndin að þessari vefútgáfu kom frá Geislavörnum ríkisins.  Aðrir íslenskir þátttakendur voru Kjartan Guðnason, sérfræðingur hjá Geislavörnum ríkisins og Sigurður Ásgrímsson, deildarstjóri hjá Landhelgisgæslu Íslands.  Ráðstefnan þótti gefa mjög gott yfirlit yfir þróun og stöðu, sérstaklega hvað snertir tæknileg atriði, og að hún myndi leiða til aukinnar samvinnu á þessu sviði.

 

Skammstafanir alþjóðastofnana:

IAEA: International Atomic Energy Agency (Alþjóða kjarnorkumálastofnunin)

WHO: World Health Organization (Alþjóða heilbrigðismálastofnunin)

CTIF: Comité technique international de prévention et d‘extinction du feu

PAHO: Pan American Health Organization