Nú er nýlokið námskeiði sem Geislavarnir ríkisins héldu í samvinnu við CTBTO (Comprehensive Nuclear-Test-Ban Treaty Organisation) til að efla þekkingu og viðhalda tæknilegri færni þeirra sem sinna rekstri eftirlitsstöðva alþjóðasáttmálans um allsherjarbann við kjarnorkutilraunum. CTBTO er alþjóðastofnun sem fer með framkvæmd alþjóðasáttmála um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn. Stofnunin hefur eftirlit með að banninu verði framfylgt og rekur í því augnamiði hnattrænt net mælistöðva. Byggir kerfið á mælingum á jarðhræringum, vöktun á hljóðbylgjum neðansjávar og í andrúmslofti, og mælingum á gammageislandi efnum í andrúmslofti.  Geislavarnir ríkisins reka eina þessara mælistöðva, en hún er sjálfvirk og safnar svifryki úr miklu magni lofts (um 600 m3/klst.) og greinir þau gammageislandi efni sem safnast á hverjum sólarhring. Gögn frá kerfinu eru send jafnóðum til gagnamiðstöðvar í Vínarborg, þar sem greining þeirra fer fram. Þau eru síðan aðgengileg aðildarríkjum.

Þetta er í fjórða sinn sem tæknimenn frá mælistöðvum sem hafa sambærilegan tækjabúnað og er í mælistöð Geislavarna ríkisins sækja slíkt námskeið hjá stofnuninni. Einnig tóku þátt fulltrúi frá framleiðanda tækjabúnaðarins og starfsfólk tækniskrifstofu CTBTO.

Sunnudaginn 28. október sl. heimsótti Lassina Zerbo, framkvæmdastjóri CTBTO mælistöðina, en hann er staddur hér á landi til að ávarpa ráðstefnu NATO um gjöreyðingarvopn, sem nú stendur yfir í Reykjavík.

Sjá færslur Lassina Zerbo og fylgdarfólks á Twitter hér og hér.

Frá námskeiði Gr og CTBTO í október 2018

Frá námskeiði Gr og CTBTO í október 2018

Frá heimsókn framkvæmdastjóra CTBTO

Frá heimsókn framkvæmdastjóra CTBTO.
F.v. Tryggvi Edwald, Lassina Zerbo, Sigurður M. Magnússon, Sabine Bauer og Kjartan Guðnason