Geislavörnum ríkisins var í byrjun vikunnar tilkynnt um alvarlegan augnskaða sem hlotist hefði af völdum leysibendis. Augnlæknar á Landspítala fengu til meðferðar 13 ára dreng sem skaðast hefur á báðum augum og misst miðjusjón á öðru þeirra eftir leik með leysibendi.

Einar Stefánsson prófessor og yfirlæknir augndeildar Landspítala segir að hann hafi ekki áður séð jafn alvarlegt dæmi um augnskaða af völdum leysibendis. Geislavarnir ríkisins ítreka að leysibendar eru ekki leikföng og hvetja foreldra til að taka leysibenda af börnum sínum.

Leysibendum á aldrei að beina að augum. Ef leysigeisla er beint að auga þá lokast augað ósjálfrátt en það getur verið of seint ef leysirinn er öflugur. Leysibendar með meira afl en 1 mW kallast öflugir. Slíkir leysibendar eru í flokki 3 og flokki 4 samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Innflutningur þeirra er tilkynningaskyldur og leyfi þarf frá Geislavörnum ríkisins fyrir notkun þeirra.

Leysibendirinn sem olli þessum skaða var keyptur erlendis en leysibendar af svipaðri gerð hafa verið til sölu á Íslandi. Samkvæmt merkingu er afl hans minna en 100 mW. Geislavarnir ríkisins mældu afl leysibendisins sem reyndist vera 90 mW. Á meðfylgjandi mynd er hann sýndur ásamt öðrum samskonar leysibendi sem samkvæmt merkingu á að vera aflminni en 5 mW en afl hans mældist vera 20 mW.

Lögreglan á Vestfjörðum lagði nýlega hald á og gerði upptækan öflugan leysibendi af sömu gerð og hér um  ræðir (<100mW) og leikur grunur á að honum hafi verið beint að augum ökumanna. Sá sem það gerði má búast við fjársekt vegna notkunar öflugs leysibendis án leyfis Geislavarna ríkisins.

Vegna örrar tækniþróunar hafa leysibendar orðið ódýrari og öflugri. Grænn leysibendir sem er 1 mW sést ágætlega í dagsbirtu og engin þörf er á sterkari leysibendi við fyrirlestrahald. Slíkir leysibendar eru í flokki 2 samkvæmt alþjóðlegum stöðum.

Frekari upplýsingar veitir Þorgeir Sigurðsson, ts@gr.is

Sjá einnig eldri frétt Geislavarna ríkisins um mál norskrar stúlku sem blindaðist af völdum sams konar leysibendis.