Helstu niðurstöður eru þær að á árinu 2010 báru 433 einstaklingar mælifilmur frá stofnuninni og mældist geislun hjá 149 þeirra (34%). Meðalgeislaálag starfsmanna er nokkuð stöðugt á milli ára, en á árinu 2010 var meðalgeislaálag þeirra starfsmanna sem urðu fyrir geislun við störf sín um 0,43 mSv en var um 0,51 mSv á árinu 2009. Til samanburðar má geta þess að árleg bakgrunnsgeislun á Íslandi er um 1,2 mSv.

Í þessari skýrslu eru einnig birtaar niðurstöður um geislaálag flugáhafna, fyrir árin 2008 til 2010. Í ljós kemur að flugáhafnir eru fjölmennasta starfsstéttin sem verður fyrir geislun við störf sín á Íslandi, en þeir mælast með hærra meðalgeislaálag en aðrar starfsstéttir. Flugáhafnir vega því þungt í hópgeislaálagi starfsmanna á Íslandi.

Minnt er á leiðbeiningar Geislavarna GR04:09 um flokkun starfsmanna og vinnusvæða, þar sem fjallað er um flokkun starfsmanna og vinnusvæða miðað við reglugerð nr. 627/2003 um hámörk geislunar starfsmanna og almennings vegna starfssemi þar sem notuð er jónandi geislun. Þar er m.a. listi yfir vinnuaðstæður og starfsemi þar sem yfirleitt er nauðsynlegt að fylgst sé með geislun einstakra starfsmanna.

 

Undirritaður veitir frekari upplýsingar

 

Guðlaugur Einarsson, eftirlitsstjóri