Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins, var kjörinn í stjórn Alþjóða geislavarnasamtakanna á aðalfundi þess í Glasgow í síðustu viku. Sigurður náði kjöri í fyrstu umferð og er kjörtímabil hans til ársins 2020.

Alþjóða Geislavarnasamtökin (International Radiation Protection Association, IRPA) var stofnað árið 1964. Samtökin eru samstarfs-vettvangur yfir 70 geislavarnafélaga sem starfa í meira en 80 löndum. Markmið samtakanna er að vera sameiginleg rödd þeirra sem starfa að geislavörnum og að vinna að sem bestum geislavörnum um allan heim.

Samtökin halda fjölmennar alþjóðlegar ráðstefnur á fjögura ára fresti og svæðisbundar ráðstefnur árlega, nema þau ár sem alþjóðleg ráðstefna er haldin.

Alþjóðlega ráðstefnan, IRPA 13, var að þessu sinni haldin í Glasgow og tóku um 1500 félagsmenn þátt í henni. Meðal nýjunga á ráðstefnunni var að hægt var að fylgjast með hluta hennar á netinu og notfærðu þúsundir félagsmanna sér það. Helsta viðfangsefni ráðstefnunnar var kjarnorkuslysið í Fukushima í Japan í fyrra, afleiðingar þess og hvaða lærdóm má af því draga. Einnig var mikið fjallað um geislavarnir í læknisfræði, en notkun geislunar í læknisfræði hefur aukist verulega á undanförnum árum. Næsta alþjóðlega ráðstefna samtakanna verður haldin í Suður – Afríku árið 2016, en svæðisráðstefna Evrópufélaganna verður haldin í Genf árið 2014.

Frekari upplýsingar um Alþjóða geislavarnasamtökin er að finna á heimasíðunni http://www.irpa.net/ og um ráðstefnuna í Glasgow á http://www.irpa13glasgow.com/.

 

22. maí 2012  SMM