Hefð er fyrir því að formennska í NSFS fari á milli Norrænu landanna og að í kjölfarið sé haldin ráðstefna í viðkomandi landi. Á myndinni tekur Þorgeir Sigurðsson, starfsmaður Geislavarna ríkisins og stjórnarmaður í NSFS við fundarhamri félagsins af Tor Wøhni fráfarandi formanni við lok ráðstefnu NSFS í Álasundi í Noregi, eftir að hafa afhent Ingvild Finne, fráfarandi ritara félagsins, blóm fyrir hönd stjórnar NSFS með þakklæti fyrir vel unnin störf.

Á ráðstefnunni í Noregi var fjallað um öll svið geislunar með vikulangri dagskrá. Hefðbundin umfjöllunarefni eru mælingar á geislun sem sjúklingar fá á sjúkrahúsum en sem dæmi um óvenjulegt viðfangsefni var fyrirlestur um hvernig nota mætti tyggigúmi til að meta eftirá, magn þeirrar geislunar sem hópur af fólki hefði fengið í geislaslysi eða við misnotkun geislunar.

Norðmenn voru gestgjafar ráðstefnunnar og kynntu á henni mörg viðfangsefni sem tengdust þeim sérstaklega, til dæmis um förgun á geislavirkum útfellingum í olíuleiðslum.

Norðmenn eiga miklar birgðir af olíu á landgrunni sínum, en þeir eiga einnig mikla birgðir af þóríni sem nýta mætti í kjarnakljúfum til framleiðslu á rafmagni. Á ráðstefnunni kynnti Sverre Hval, kosti og galla við slíka notkun á þóríni.

Í Frakklandi er unnið við smíði kjarnasamruna-vers í samvinnu Evrópusambands, Bandaríkjanna og fleiri. Sérfræðingar frá danska tækniháskólanum (DTU og Risø) lýstu aðferðum við útreikninga fyrir hönnun á slíku veri. Mörg vandamál hafa komið í ljós en ekkert þeirra virðist óleysanlegt. Meðal annars þarf að byggja margfalt stærri línuhraðal en nokkru sinni hefur áður verið byggður. Ekki er útilokað að verulegt magn raforku verði framleitt í slíkum verum eftir nokkra áratugi.

Flestir aðildarfélaga NSFS eru starfsmenn geislavarnastofnanna Norðurlanda, en einnig eru í félaginu vísindamenn sem starfa á sjúkrahúsum og við háskóla. Vísindamenn í Eystrasaltslöndum geta átt aðild að NSFS og hafa nokkrir nýtt sér það.

Á vefsíðunni www.NSFS.org eru birtir fyrirlestrar og greinar sem kynntar voru á ráðstefnunni, m.a. um ljósabekkjanotkun Íslendinga sem Þorgeir kynnti. Geislavarnir ríkisins munu hafa umsjón með þessari vefsíðu næstu þrjú árin.

Þorgeirs Sigurðsson, starfsmaður Geislavarna tekur við fundarhamri NSFS við ráðstefnulok í Ålasundi

 

ÞS – 10. júní 2008