IAEA hefur gert saminga við flest ríki (nú yfir 140) vegna banns við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Að auki hafa verið gerðar bókanir við samninga einstakra ríkja sem gefa IAEA rétt til eftirlits með að staðið sé við samningana og ríki skuldbinda sig einnig til að senda reglulega tilkynningar um atriði sem geta haft þýðingu við þróun eða dreifingu efna eða tækni til gerðar kjarnorkuvopna.  Til þess að þetta stranga eftirlit sé virkt, þá er mikilvægt að öll ríki uppfylli kröfur þessara bókana, einnig ríki sem búa ekki yfir tækni til starfrækslu kjarnakljúfa.

Tilkynningar einstakra ríkja til IAEA þurfa að fylgja mjög ströngu formi og framkvæmdin hefur vafist fyrir ýmsum.  Geislavörnum ríkisins hefur verið falið að sjá um þessar tilkynningar af hálfu Íslands og hefur það þótt takast vel.  IAEA bað því þann sérfræðing Geislavarna sem sér um tilkynningarnar, Kjartan Guðnason, um að kynna reynslu sína af framkvæmd tilkynninga á ráðstefnu um þær: Seminar on IAEA Safeguards for States with Limited Nuclear Material and Activities.  Ráðstefnan er ætluð ríkjum sem búa ekki yfir kjarnorkutækni, en þurfa sem önnur ríki að uppfylla kröfur um tilkynningar til IAEA.  Mikil áhersla er lögð á að sýna að þetta sé vel framkvæmanlegt, jafnvel fyrir ríki með takmarkað vinnuframlag á þessu sviði. 

Nánari upplýsingar um þetta starf IAEA má fá á vefsetri stofnunarinnar: