Gera má ráð fyrir að geislavirk efni frá kjarnorkuslysinu í Japan mælist áfram á Íslandi og annar staðar í Evrópu á næstu dögum og vikum. Efnin geta orðið mælanleg um allan hnöttinn (svipað og aska frá Eyjafjallajökli) en geislun á frá þeim á fjarlægum slóðum hverfur algjörlega í skuggann af þeirri geislun sem fyrir er, manngerðri og náttúrulegri og heilsufarsleg áhrif þeirra á svo fjarlægum slóðum eru engin. Gera má ráð fyrir að geislavirknin geti orðið 1/1000 – 1/10 000 hluti þess sem mældist í Evrópu eftir slysið í Chernobyl 1986 en þá mældist mjög lítil geislavirkni á Íslandi.

Geislavarnir reka mjög næma mælistöð á vegum CTBTO, stofnunar sem sér um að banni við kjarnorkuvopnatilraunum sé framfylgt, og er stöðin hluti af neti 63 mælistöðva sem reknar eru á vegum CTBTO. Í þessum stöðvum er auðvelt að greina manngerð geislavirk efni, þótt magn þeirra sé hverfandi miðað við náttúruleg. Aðrar CTBTO mælistöðvar hafa tilkynnt um manngerð geislavirk efni (sem eru nær örugglega frá Fukushima) í Japan, Rússlandi, Bandaríkjunum og Kanada. Það passar við loftstraumaspár sem sýna að geislavirkt svifryk berist frá Japan til Norður-Ameríku og Evrópu.

Í mælistöðinni sem Geislavarnir reka er skipt daglega um síu. Það tekur hins vegar rúmlega 2 sólarhringa að fá niðurstöður eftir að loftsöfnun lýkur. Fyrst þarf að láta skammlíf náttúrleg efni deyja út í sólarhring, annars skyggja þau allt of mikið á manngerðu efnin. Síðan tekur við mæling í sólarhring. Þessi langi tími er forsenda þess að geta greint svo örlítið magn eins og hér um ræðir. Ef um meira magn er að ræða, þá þarf ekki þessa bið og Geislavarnir geta mælt í rauntíma hvernig þau byggjast upp á síunni við loftsöfnunina.  Geislavarnir eiga einnig gott samstarf við Veðurstofuna varðandi mat á dreifingu loftborinna agna frá Japan.

Hvort og hvenær svo lítið magn geislavirkra efna mælist á Íslandi hefur fyrst og fremst vísindalegt gildi.  Meginþungi í greiningarvinnu Geislavarna vegna ástandsins í Fukushima er því mat á áhrifum dreifingar geislavirkra efna sem þegar er orðin þar og gæti orðið.  Stuðst hefur verið við rauntímagögn ýmissa mælistöðva og mat sérfræðinga, einkum frá öðrum Norðurlöndum.  Geislavarnir hafa átt gott samstarf við Borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytisins, sem hefur getað miðlað upplýsingum og ráðgjöf til Íslendinga í Japan.  Sem betur fer virðist ástand fara batnandi, þótt það sé enn alvarlegt.  Geislavarnir munu því halda áfram vöktun á þessu sviði.