Ástand í Fukushima
Ástandið í kjarnorkuverinu í Fukushima telst enn alvarlegt, þótt svo virðist sem að tekist hafi að ná tökum á því. Bráðnun hluta eldsneytisstanga virðist hafa orðið í kjarnakljúfum 1-3 og það getur tekið nokkra mánuði að ná hitastigi þeirra niður fyrir suðumark vatns (100 °C), en eftir það verður kæling einfaldari.

Þótt ástandið í Fukushima kjarnorkuverinu sé enn talið alvarlegt, þá hefur til muna dregið úr dreifingu geislavirkra efna þaðan og líkur á frekari dreifingu hafa stórminnkað. Tvennt kemur þar til. Annars vegar hafa skammlíf efni rýrnað verulega, þannig að magn þeirra er einungis brot af því sem áður var, hins vegar hefur miðað í rétta átt við að ná tökum á kælingu kjarnakljúfanna. Á vef Alþjóðakjarnorkumálastofnunar-innar IAEA, má finna mikið lesefni um slysið og afleiðingar þess. Hópur vísindamanna frá stofnuninni er nú í Japan til að vinna að úttekt á slysinu. Niðurstöður hennar verða kynntar á ráðherrafundi hjá stofnuninni í næstu viku, 20.- 24. júní.

Dreifing efna til umhverfis
Athygli manna hefur einkum beinst að tveimur þeirra geislavirku efna sem sluppu til umhverfis frá Fukushima. Þau eru annars vegar joð-131 (I-131) og hins vegar sesín-137 (Cs-137). Joð-131 var mest áberandi í upphafi, en það er skammlíft og magn þess rýrnar um helming á 8 dögum. Það er varasamt vegna þess að það getur safnast í skjaldkirtil og valdið krabbameini þar. Sesín-137 er hins vegar tiltölulega langlíft, helmingunatími þess er rúm 30 ár. Dreifing sesín-137 á svæðum í grennd við Fukushima hefur verið metin meðal annars með því að fljúga yfir svæðin með næman geislagreiningarbúnað. Þetta var gert í samvinnu japanskra yfirvalda og Orkumálaráðuneytis Bandaríkjanna. Niðurstöður þessa mats má sjá á vef IAEA [mynd af dreifingu].

Geislavarnir ríkisins eiga einnig samvinnu við orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna og hafa tekið samskonar búnað í notkun og var notaður við þetta verk. Það er hluti af viðbúnaði stofnunarinnar að geta gert úttektir af þessu tagi, einnig til að sýna með áreiðanlegum hætti að geislamengun hafi ekki orðið.

Geislavirk efni frá Fukushima í svifryki á Íslandi
Geislavarnir ríkisins starfrækja mjög næma mælistöð, þar sem geislavirkum efnum í svifryki er safnað síur í sólarhring og þau síðan mæld. Þessi vöktun er hluti af alþjóðlegu samstarfi til að fylgjast með að banni við kjarnorkusprengjutilraunum sé framfylgt. Þau greindust á Íslandi, fyrst af öllum Evrópulöndum, í mælistöð Geislavarna. Örlítð magn fannst í síum sem safnað var 19. – 20. mars. Styrkur geislavirkra efna í svifryki jókst síðan og náði hámarki í byrjun apríl. Magnið var þó enn mjög lítið samanborið við náttúruleg geislavirk efni. Síðan hefur magnið dvínað jafnt og þétt og engin efni hafa greinst eftir 18. maí. Joð-131 hefur ekki greinst hérlendis frá 7. maí og mun líklega ekki finnast aftur að öllu óbreyttu. Vöktun geislavirkra efna í svifryki heldur að sjálfsögðu áfram þótt efni frá Fukushima berist ekki lengur hingað til lands.

frett_fukushima
Engin heilsufarsáhætta fylgir svo litlu efnismagni eins og mældist hérlendis. Til samanburðar má nefna að geimgeislar mynda náttúrulega geislavirka kjarntegund, beryllín-7 (Be-7). Dæmigerður styrkur hennar er frá tæplega þúsund upp í nokkur þúsund µBq/m3 (sama eining og er á skýringarmyndinni).

Matvæli
Japanir gripu skjótt til takmarkana á neyslu og dreifngu matvæla frá svæðum þar sem geislamengunar gætti. Það hefur eflaust takmarkað verulega afleiðingar slyssins. Mörg ríki gripu til innflutningstakmarkana í kjölfar slyssins og hér á landi var reglugerð Evrópusambandsins um innflutningstakmarkanir innleidd 7. apríl með reglugerð Nr. 386/2011.

Nú eru mörg ríki hins vegar farin að draga úr takmörkunum á innflutningi japanskra matvæla eða beina takmörkunum einkum að þeim svæðum þar sem geislamengunar gætir í matvælum. Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur einnig tekið þetta mál upp og bent á að innflutningstakmarkanir skuli byggðar á vísindalegum rökum.

Langtímaáhrif í Japan
Langtímaáhrif slyssins eru hverfandi utan Japan. Það er einkum geislavirka efnið sesín-137 sem veldur langtímaáhrifum. Það dreifðist um allan hnöttinn í kjölfar tilrauna í andrúmloftinu með kjarnorkuvopn á árunum í kringum 1960 og er enn að finna í litlu magni alls staðar. Þótt sesín hafi langan helmingunartíma, þá getur það horfið úr fæðukeðjunni með öðrum hætti, t.d. bundist jarðvegi það fast að það berist ekki í plöntur. Eldfjallajarðvegur (Andosol) í Japan og á Íslandi er þó í mörgu frábrugðinn öðrum jarðvegsgerðum. Hann bindur sesín t.d. illa, þannig að áhrifa þess getur gætt lengur en í öðrum jarðvegi. Þetta kemur m.a. fram í grein frá Geislavörnum sem send hefur verið til birtingar í vísindariti. Þessar íslensku niðurstöður hafa jafnframt, að tilstuðlan breskra vísindamanna, verið kynntar japönskum vísindamönnum sem vinna að mati á langtímaáhrifum slyssins í Japan. Vonandi geta niðurstöður héðan orðið að gagni við þetta mat og aðstoðað Japani við að lágmarka afleiðingar þess.

Stoðefni:

Almennt um ástand í Fukushima og Japan
http://www.iaea.org/

Lýsing IAEA á ástandinu í Fukushima (uppfærð reglulega)
http://www.iaea.org/newscenter/news/tsunamiupdate01.html

Tilvísanir varðandi ferðalög og flutninga til- og frá Japan:
http://www.iaea.org/About/japan-infosheet.html

http://www2.icao.int/en/NewsRoom/Lists/News/DispForm.aspx?ID=40&Source=http%3A%2F%2Fwww2%2Eicao%2Eint%2Fen%2Fnewsroom%2Fdefault%2Easpx

http://www.imo.org/MediaCentre/PressBriefings/Pages/22-japan-update.aspx

Sigurður Emil Pálsson

sep@gr.is