Í Ferðaviðvörun vegna Japan, sem Utanríkisráðuneytið gaf út í dag að höfðu samráði við Geislavarnir ríkisins, er íslenskum ríkisborgurum í Japan ráðlagt að:

  1. Halda sig utan 80 km öryggissvæðis í kringum Fukushima Dai-ichi
  2. Íhuga að flytja sig suður á bóginn þar til aðstæður skýrast ef þeir eru staddir á Tókýó svæðinu eða fyrir norðan Tókýó.

Norrænu geislavarnastofnanirnar höfðu í gærkvöldi samráð um að miða við 80 km öryggissvæði í kringum Fukushima Dai-ichi kjarnorkuverið og ráða borgurum sínum frá því að vera innan þessa svæðis. Sé þeim ráðum fylgt, þá á fólki ekki að vera heilsufarsleg hætta búin. Fleiri lönd hafa einnig miðað við sama öryggissvæði.

Þótt ástandið sé ótryggt og það geti leitt til þess að töluvert magn geislavirkra efna losni, þá stendur fyrra mat ennþá: Þetta getur leitt til mælanlegrar aukningar geislunar á víðu svæði, en heilsufarsleg áhætta verður væntanlega staðbundin.  Reynsla frá fyrri kjarnorkuslysum sýnir hins vegar að ef fréttir taka að berast af því að geislavirk efni frá slysi taka að mælast, þá getur það skiljanlega valdið ótta og ókyrrð. Það gildir, jafnvel þótt magnið hafi mun minni áhrif en náttúruleg geislavirk efni á viðkomandi svæði og jafnvel þótt vitað sé að heilsufarsleg áhrif séu lítil.  Ábendingin um að íhuga að flytja frá Tókýó svæðinu byggir því ekki á heilsufarslegri ógn vegna geislunar á svæðinu, heldur þeim truflunum sem kunna að hljótast á samgöngur (margir að vilja komast burt), matvælaframboð (ef fólk fer að hamstra mat) o.s.frv.  Að auki getur óvissa vegna geislunarinnar valdið fólki áhyggjum og álagi.

Geislavarnir ríkisins fylgjast náið með framvindu mála í Fukushima kjarnorkuverinu.  Stofnunin hefur nú öðlast rauntíma aðgang að mörgum sjálfvirkum geislamælistöðvum víða í Japan.  Gögnin sýna áhrif sprengingarinnar sem varð á mánudag 14. mars (aðfaranótt þriðjudags að íslenskum tíma) og að geislavirk efni bárust þá frá verinu með vindum til suðurs. Styrkur geislunar minnkaði ört með fjarlægð frá verinu. Á þeim svæðum þar sem geislavirki mökkurinn fór yfir hefur styrkur geislunarinnar síðan farið jafnt og þétt minnkandi, þrátt fyrir þann vanda sem enn er við að etja.

Mæligögn sýna því ekki frekari geislamengun frá verinu á svæðum fjarri því. Mælistöðvar í grennd við Tókýó sýna allar lág gildi (40 – 70 nSv/klst = 0,04 – 0,07 µSv/klst), sem er sambærilegt við það sem mælist á Íslandi (en náttúrulegur bakgrunnur er lágur hér á landi).

Geislavarnir munu fylgjast grannt með öllum breytingum á styrk geislunar og öðrum upplýsingum sem varða mat á slysinu og koma þeim til Borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytis.  Jafnframt er samráð við  Veðurstofu og samstarfsaðila erlendis, norrænar geislavarnastofnanir og Alþjóðlegu kjarnorkustofnunina, IAEA. Varðandi læknisfræðileg atriði er haft samráð við Sóttvarnalækni.

Sjá einnig upplýsingar á fréttasíðum GR undanfarna daga.

 

Sigurður Emil Pálsson, sep@gr.is

 

Stoðefni:

Efnið að ofan var aðgengilegt þegar það var skoðað 16.3 en Geislavarnir geta ekki ábyrgst að það verði (eða hafi verið) aðgengilegt áfram eða að það sé óbreytt.