Á Röntgendaginn, þann 8. nóvember, hófst samræmt átak evrópskra geislavarnastofnana þar sem sérstök áhersla verður lögð á geislavarnir sjúklinga í læknisfræðilegri myndgreiningu í eftirliti stofnananna.

Það eru samtök evrópskra geislavarnastofnana (HERCA) sem beita sér fyrir þessu átaki með það að markmiði að leggja mat á beitingu grunnreglu geislavarna um réttlætingu.

Grunnreglan um réttlætingu kveður á um að öll læknisfræðileg geislun skuli vera nægilega gagnleg fyrir sjúklinginn til þess að vega upp á móti mögulegri skaðsemi af völdum hennar.

Geislavarnir ríkisins munu á næstu dögum, líkt og aðrar geislavarnastofnanir í Evrópu, haga eftirliti í takt við eigið verklag en að auki verða lagðar fyrir samræmdar spurningar um beitingu réttlætingar þar sem farið er yfir ferli tilvísana og aðkomu viðeigandi heilbrigðisstarfsmanna að réttlætingarferlinu.

Markmið átaksins er að meta í hve miklum mæli grunnreglunni um réttlætingu er beitt í raun og að greina mögulegar leiðir til umbóta.  Niðurstöður verða að lokum birtar í skýrslu á vef HERCA.

Nánar má lesa um átakið í þessari fréttatilkynningu frá HERCA.