Um hádegisbil fimmtudaginn 10. desember kom upp atvik í ofni 2 í Olkiluoto kjarnorkuverinu á vesturströnd Finnlands. Hátt geislasvið mældist í gufuleiðslu og slökkt var á ofninum vegna þessa. Við skoðun kom í ljós að plastefni brotnaði úr síum í vatnleiðslum sem liggja að eldsneyti kjarnaofnsins. Þegar plastefnið ferðaðist í gegnum gufulagnirnar mældist hækkað geislasvið sem olli neyðarstoppi í kjarnaofninum. Hátt geislasvið í gufulögnum getur verið vísbending um skemmdir í eldsneyti ofnsins en svo var ekki að þessu sinni. Geislasviðið í lögnunum lækkaði fljótt aftur og engin losun varð á geislavirkum efnum út í umhverfið vegna þessa atviks. Öll öryggiskerfi kjarnorkuversins virkuðu eins og skyldi og nú er unnið að því að koma kjarnorkuverinu í eðlilega starfsemi aftur.
Hægt er að sjá niðurstöður gammamæla í nágrenninu hérna, ásamt öðrum gammastöðvum í Evrópu.
Frétt uppfærð 12. desember 2020
Fréttatilkynning frá finnsku geislavarnastofnuninni, STUK. 14. desember 2020.
Samantekt IAEA um atvikið (15. desember 2020).