Geislaslys sem valdið hafa geislavirku ofanfalli, s.s. Tsjernóbyl slysið árið 1986, hafa sýnt fram á mikilvægi þess að auka skilning manna á áhrifum og afdrifum geislavirkra efna í borgarumhverfi. Þessi þekking er forsenda fyrir réttum viðbrögðum og viðbúnaðaraðgerðum komi til geislaslysa.

Takmarkaðar rannsóknir hafa farið fram á afdrifum geislavirkra efna sem skolast í fráveitukerfi borga og hvaða áhrif þau geti haft á starfsmenn þeirra. Sett hefur verið á laggirnar samnorrænt verkefni innan NKS (Norrænna kjarnöryggisrannsókna), nefnt LUCIA, sem hefur það að markmiði að safna gögnum frá aðildarríkjunum um losun geislavirkra efna í fráveitur og upplýsingum um aðferðir við hreinsum skólps. Geislavarnir taka þátt í verkefninu fyrir hönd Íslands. Gögnin verða sett í líkan sem metur afdrif geislavirku efnanna og áhrif þeirra á umhverfið. Lögð er áhersla á að kanna afdrif efnanna í skólphreinsistöðvum borga, en slíkar stöðvar eru nú starfræktar í flestum borgum og bæjum á Norðurlöndum. Meginuppspretta geislavirkra efna í fráveitukerfum eru sjúkrahús sem meðhöndla krabbameinssjúklinga með geislavirkum efnum, einkum geislavirku joði (I-131).

Niðurstöður verkefnisins munu gefa skýrari mynd af styrk og afdrifum geislavirkra efna í holræsakerfum þéttbýlis. Einnig munu þær hjálpa til við viðbúnaðaraðgerðir losist geislavirk efni í holræsi í miklu magni hvort sem um er að ræða óhapp eða ásetning. Niðurstöðurnar munu einnig nýtast við vöktun geislavirkra efna í umhverfinu.