Norrænar kjarnöryggisrannsóknir (NKS) styrkja í ár tuttugu verkefni og Geislavarnir ríkisins taka þátt í fimm þeirra, en þau eru á sviði viðbúnaðar. Í síðustu viku var sagt frá verkefninu NORCON (sjá frétt) og hér greinir frá verkefninu GammaUser, en vinna við það er nú að hefjast.

Verkefnið GammaUser snýst um gammagreiningu. Gammagreining er sú mælitækni sem mest er notuð, t.d. eftir kjarnorkuslys, til að greina geislavirk efni og meta magn þeirra út frá mælingu á gammageislun. Geislavarnir ríkisins beita gammagreiningu til að mæla hversu mikið er af manngerðu geislavirku sesíni (Cs-137) í ýmsum reglubundnum sýnum úr umhverfi og matvælum (sjá vöktunarskýrslur) og til að komast að því hvaða geislavirk efni eru í ýmsum öðrum sýnum. Orkuróf gammageislunar frá tilteknu sýni er mælt og eiginleikar þess notaðir til að greina „fingraför“ ákveðinna kjarntegunda.

Í GammaUser verkefninu verður haldin vinnustofa um gammagreiningu í Finnlandi. Vinnustofuna má líta á sem sjálfstætt framhald árlegra vinnustofa sem haldnar hafa verið á Norðurlöndunum síðustu fimm ár (sjá skýrslu um síðustu vinnustofu). Í vinnustofunni í ár verður lögð áhersla á almenna jafnt sem sérhæfða fyrirlestra um tæknileg atriði gammagreiningar og æfingar þar sem þátttakendur greina geislavirk efni og meta magn þeirra í óþekktum sýnum.

Sérfræðingur hjá Geislavörnum ríkisins fer með verkefnisstjórn, en hún felst einkum í undirbúningi samanburðaræfingar, samskiptum við fyrirlesara og skipulagningu vinnustofunnar.

Nánari upplýsingar veitir Óskar Halldórsson.

Gammaróf gjósku úr Eyjafjallajökli

Gammaróf gjósku úr Eyjafjallajökli. Engin manngerð geislavirk efni er að finna í því, en þónokkur náttúruleg.