Geislavarnir ríkisins hafa rekið fjórar síritandi, sjálfvirkar geislamælistöðvar, eina í hverjum landsfjórðungi í mörg ár. Gögnin frá þessum stöðvum eru birt á vefsíðu stofnunarinnar án tafar og án yfirferðar (sjá /gammastodvar).

Óvenjulega há gildi hafa birst í gögnum frá mælistöðinni í Reykjavík í síðustu viku (síðan 28. febrúar (sjá mynd)). Geislavarnir ríkisins vakta þessar mælingar og hófu þegar (29. febrúar) að kanna hvað kynni að valda þessum hækkuðu gildum. Við mælistöðina í Reykjavík er einnig starfrækt mjög öflug sjálfvirk loftdæla sem dregur um 600 rúmmetra af lofti í gegnum loftsíu á hverri klukkustund. Skipt er um loftsíu einu sinni á sólarhring. Með mælingum á loftsíunum er hægt að meta styrk geislavirka efna í andrúmsloftinu með mikilli nákvæmni.

Geislamælistöð í Reykjavik

 

Eftir athugun á lögun toppanna sem sáust og samanburð við niðurstöður frá öðrum geislamælum stofnunarinnar í Reykjavík á sama tíma sem og mælingar á geislavirkum efnum í loftsíum frá þessum tíma, er það niðurstaða Geislavarna ríkisins að topparnir stafi ekki af aukinni geislun heldur sé um að ræða bilun í rafeindabúnaði mælistöðvarinnar.

Geislavarnir ríkisins hafa sett saman nánari lýsingu á matinu sem leiddi að þessari niðurstöðu og geta áhugasamir sótt sér hana hér.

Nánari upplýsingar veitir :

 

Sigurður Emil Pálsson, viðbúnaðarstjóri Geislavarna ríkisins, sep@gr.is.