Þann 27. nóvember sl. voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögum nr. 44/2002 um geislavarnir og taka þær gildi 1. janúar 2014. Markmiðið með þessum breytingum á lögunum var að laga íslenska löggjöf á sviði geislavarna að breyttum alþjóðlegum áherslum m.a. hjá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni (IAEA) en þær byggjast á nýlegum ráðleggingum Alþjóðageislavarnaráðsins (ICRP 2011). Þá er einnig tekið tillit til nýlegra breytinga á tilskipunum Evrópusambandsins um geislavarnir og framkvæmd þeirra.

Lög um geislavarnir eru frá 2002 og hafa þau verið endurskoðuð tvisvar áður, 2008 og 2010. Markmiðið með breytingunum 2008 var einkum að einfalda framkvæmd eftirlits Geislavarna ríkisins og draga úr reglubundnu tæknilegu eftirliti en auka áherslu á ábyrgð notenda, virk gæðakerfi og mat á geislaálagi sjúklinga. Einnig var aukin áhersla á mælifræði og viðbúnað. Markmiðið með breytingunum 2010 var fyrst og fremst að festa í löggjöfina að einstaklingum yngri en 18 ára væri óheimil notkun sólarlampa í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum, á stöðum sem starfsleyfi hefðu samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. 

Lagabreytingin núna er umfangsmeiri, þar sem breytingar eru gerðar á mörgum greinum auk þess sem bætt er við greinum með það að markmiði að lögin endurspegli nýjar áherslur á alþjóðlegum vettvangi geislavarna.

Breytingarnar eru sem hér segir:

 1. Við markmiðsgrein laganna er bætt að ávallt skuli réttlæta notkun geislunar.
 2. Skilgreiningum á geislatækjum og læknisfræðilegri geislun er breytt.
 3. Bætt er við skilgreiningu á réttarfarslegri geislun.
 4. Heimild til að setja reglur með stoð í lögum um geislavarnir er felld brott.
 5. Ákvæði um ráðherraskipað geislavarnaráð er fellt brott.
 6. Lagt er bann við íblöndun geislavirkra efna við framleiðslu matvæla, fóðurs, leikfanga, skartgripa og snyrtivara.
 7. Nýjar reglugerðarheimildir til handa ráðherra til að setja nánari reglur um eftirtalda afmarkaða þætti geislavarna:
  • mat á gagnsemi og áhættu við notkun á jónandi geislun, svo og um réttarfarslega geislun
  • viðbúnað og viðbrögð við geislaslysum, þ.m.t. upplýsingagjöf til almennings og viðmiðunarmörk fyrir styrk geislavirkra efna í matvælum
  • flokkun, geymslu, meðferð og förgun geislavirkra efna og geislavirks úrgangs
  • geislavarnir við skoðanir á hópi fólks, þ.m.t. viðmið geislunar
 8. Þegar notkun á jónandi geislun í tengslum við læknisfræðilega geislun er réttlætt skal einnig taka mið af gagnsemi og áhættu af notkun annarrar tækni sem fyrir hendi er og nýtir minni eða enga jónandi geislun.
 9. Lögfest er að við eftirlit með notkun jónandi geislunar skuli taka mið af þeirri áhættu sem notkuninni fylgir. Þrepaskipt nálgun (e. graded approach) með þessum hætti er í samræmi við breyttar alþjóðlegar áherslur.