Lög um geislavarnir nr. 44/2002 tóku gildi 1. maí 2002. Í 23. gr. er kveðið á um endurskoðun á eftirlitsþætti laganna innan 5 ára frá gildistöku þeirra. Heilbrigðisráðherra mælti fyrir frumvarpi til breytinga á lögunum þann 5. febrúar 2008. Samkvæmt því er eftirlit stofnunarinnar einföldað og dregið úr reglubundnu tæknilegu eftirliti. Þess í stað er nú lögð áhersla á ábyrgð notenda, virk gæðakerfi notenda og mat á geislaálagi sjúklinga. Breyttum áherslum í starfsemi Geislavarna er ætlað að stuðla að því að notkun geislunar á Íslandi sé sem árangursríkust og geislun á fólk sé sem minnst, hvort sem um er að ræða almenning, starfsfólk eða sjúklinga.

Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi þann 7. Apríl 2008, lög nr. 28/2008 um breytingu á lögum nr. 44/2002 um geislavarnir (pdf) og tóku þau gildi 1. Janúar 2009.

Breytingarnar sem lög nr. 28/2008 fela í sér eru fjórþættar:

  • Í fyrsta lagi er framkvæmd eftirlits með innflutningi, uppsetningu og breytingu á geislatækjum sem gefa frá sér jónandi geislun einfölduð.
  • Í öðru lagi er útflutningur geislavirkra efna háður leyfi Geislavarna ríkisins og verði leyfi því aðeins veitt að stjórnvald í móttökulandinu staðfesti að móttakandi efnisins hafi leyfi til móttöku geislavirkra efna.
  • Í þriðja lagi er Geislavörnum ríkisins falin nauðsynleg mælifræði og umsjón með og varðveisla landsmæligrunna fyrir jónandi geislun og geislavirkni. Með mælifræði jónandi geislunar er átt við fræði og aðferðir til að mæla geislun, geislaskammta og geislavirkni en með landsmæligrunni er átt við mælitæki eða mælikerfi sem ætlað er að skilgreina eða endurgera mælieiningu sem höfð er til viðmiðunar í landinu.
  • Í fjórða lagi er orðalag nokkurra greina laga nr. 44/2002 gert skýrara.

Unnið er að breytingum á reglugerðum um geislavarnir vegna notkunar geislavirkra efna og geislatækja með sömu markmið í huga og við lagabreytingarnar.

SMM