CTBTO (Comprehensive Nuclear-Test-Ban Treaty Organisation) er alþjóðastofnun um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn. Stofnunin hefur eftirlit með að banninu verði framfylgt og rekur með það að markmiði hnattrænt net næmra mælistöðva. Geislavarnir ríkisins reka eina þessara mælistöðva, en hún er sjálfvirk og safnar svifryki úr miklu magni lofts (yfir 500 m3/klst.) og greinir þau gammageislandi efni sem safnast á hverjum sólarhring. Geislavarnir gegna einnig hlutverki gagnamiðstöðvar Íslendinga (National Data Centre) og hafa sem slík aðgang að öllum gögnum vöktunarkerfisins, þar á meðal sjálfvirkri greiningu gagna frá Íslandi og öllum stöðvum erlendis. Niðurstöður frá mælistöðvum CTBTO (jafnt hér heima sem erlendis) veita ekki upplýsingar um hvað hefur gerst síðasta sólarhring, það líður alltaf a.m.k. sólarhringur frá því að söfnun svifryks lýkur þar til mæling hefst. Þetta er gert til að láta skammlíf náttúruleg geislavirk efni í svifrykinu deyja út og trufla síður mælingu. En þegar niðurstöðurnar koma, þá gera þær kleift að þekkja og magngreina þau geislavirk efni sem kunna að hafa borist til andrúmslofts, enda er kerfinu ætlað að tryggja að ekki sé unnt að gera neinar tilraunir með kjarnorkusprengjur án þess að það verði numið. Það er því mjög dýrmætt fyrir Geislavarnir ríkisins að eiga aðgang að þessum gögnum í starfi sínu við að geta sýnt fram á að geislavirk efni hafi eða hafi ekki borist í marktæku magni á íslensk umráðasvæði. Gagnamiðstöð CTBTO dreifir einnig gögnum frá eftirlitskerfi sínu til upplýsinga, t.d. um dreifingu geislavirkra efna frá Fukushima, og um kjarnorkutilraunir Norður-Kóreumanna