Ritgerðin byggist á 4 birtum vísindagreinum. Meginefni ritgerðarinnar er tölfræðileg greining á geislavirka úrfellinu sem fylgdi tilraunum með kjarnorkuvopn í andrúmsloftinu. Leitað var eftir sem einfaldastri lýsingu á hvernig þetta úrfelli dreifðist um Jörðina. Niðurstaðan er að úrkoma og hnattbreidd ráða þar mestu. Einnig kom skýrt fram að magn úrfellis stendur ekki í beinu hlutfalli við úrkomu, eins og oft er miðað við, heldur verður aukningin minni með vaxandi úrkomu. Niðurstöðurnar nýtast við að meta dreifingu úrfellis um jörðina. Kort með mati á dreifingu sesíns-137 á Íslandi var útbúið og matið sannreynt með mælingum á jarðvegssýnum og mjólk frá býlum og mjólkursamlögum. Mjólkurgögn voru notuð til að kanna hversu hratt efnið hverfur úr íslensku vistkerfi. Rýrnunin reyndist hægari en þekkist almennt annars staðar á sambærilegum svæðum. Þetta gefur til kynna að áhrifa hugsanlegrar mengunar af völdum sesíns-137 myndi því gæta lengur hér.

Nánari upplýsingar um vörnina má fá á kynningarvefsíðu háskólans: http://www.hi.is/vidburdir/doktorsvorn_sigurdar_emils_palssonar

Á vefsíðu hjá Geislavörnum ríkisins má nálgast handrit ritgerðarinnar og hlekki í þær greinar sem hún byggir á, einnig má finna þar ágrip ritgerðarinnar: /stodflokkar/greinar/

Leiðbeinandi af hálfu Háskóla Íslands var Örn Helgason, prófessor emeritus. Annar leiðbeinandi var dr. Brenda J. Howard, MBE, sérfræðingur við Centre for Ecology & Hydrology í Bretlandi og stjórnandi margra alþjóðlegra vísindaverkefna á sviði geislavistfræði. Brenda hefur hlotið MBE orðu Bretadrottningar fyrir framlag sitt á þessu sviði. Í doktorsnefndinni var auk þeirra Sigurður M. Magnússon, eðlisfræðingur, forstjóri Geislavarna ríkisins. Hann er nú m.a. formaður stjórnar NKS, Norrænna kjarnöryggisrannsókna, www.nks.org. NKS hefur styrkt norrænar rannsóknir á sviði geislavarna í áratugi, m.a. rannsóknina að ofan.

Andmælendur eru dr. Graeme Shaw, prófessor í umhverfisvísindum við háskólann í Nottingham og einn ritstjóra Journal of Environmental Radioactivity, helsta vísindarits á sviði geislavistfræði og dr. Andrew N. Tyler, sérfræðingur við háskólann í Stirling, Skotlandi. Hann stýrir ýmsum breskum rannsóknaverkefnum og er formaður tveggja alþjóðlegra nefnda um stöðlun geislamælitækni. Andrew tekur við hlutverki andmælanda af Mikhail Iosjpe, sem forfallaðist vegna veikinda.