Geislavarnir hafa undanfarin ár unnið í því að auka tengsl við vísindamenn utan Norðurlanda. Hæst ber þar samvinnu við Brendu Howard. Hún hefur verið virk í rannsóknum í geislavistfræði í rúma tvo áratugi, stýrt 7 rammaverkefnum Evrópusambandsins, lagt til efni í nokkrar af handbókum Alþjóða­kjarn­orku­málastofnunarinnar (IAEA) og verið leiðandi í ýmsum alþjóðlegum rannsóknaverkefnum, t.d. á vegum AMAP (Arctic Monitoring and Assessment Programme). Henni var nýlega veitt MBE orða breska ríkisins vegna framlags síns til vísinda. Brenda Howard hefur áður komið til Íslands vegna sameiginlegra rannsóknaverkefna hennar og Geislavarna ríkisins.

Nýlega kom út grein í tímaritinu Journal of Environmental Radioactivity um eiginleika eldfjallajarðvegs (Andosol) til að binda geislavirkt sesín. Greinin var m.a. unnin í samvinnu við Dr Brendu og er hún meðhöfundur. Lesa má nánar um greinina í frétt sem birtist á vef Geislavarna í nóvember síðastliðnum.