Kjarnorkusprengjur voru fyrst sprengdar árið 1945 og brátt kom í ljós að geislavirkar agnir gátu borist langar leiðir. Einungis var um örlítið magn að ræða, en það var þó greinanlegt vegna þess hve auðvelt er að greina geislun frá flestum geislavirkum efnum. Sprengjurnar urðu æ öflugri og með tilkomu vetnissprengjunnar á sjöunda áratugnum gátu geislavirk efni borist hátt í heiðhvolfið og þaðan um alla jörðina. Margir fóru að hafa áhyggjur af þessari dreifingu, einkum þegar ljóst varð undir lok áratugarins að þótt styrkur efnanna væri ekki mikill að jafnaði, þá gætu þau safnast fyrir í lífríkinu við vissar aðstæður, t.d. setið á fléttum sem hreindýr nærast á og síðan byggst upp í líkömum Sama sem einkum nærast á hreindýrakjöti. Áhyggjur af geislavirku úrfelli rötuðu einnig inn í dægurmenningu samtímans, margir muna hvernig götur Reykjavíkur tæmdust þegar framhaldsleikritið „Hulin augu“ var flutt í útvarpinu 1961 (íslensk þýðing „City Of The Hidden Eyes“ eftir Philip Levene, upphaflega flutt í bresku útvarpi 1959). Færri muna líklega að rót þessa vísindatryllis voru áhyggjur vera í iðrum jarðar af því hvernig mannkynið var að menga jörðina geislavirkum efnum.

Tilraunir með kjarnorkusprengingar í andrúmsloftinu lögðust að mestu af í kjölfar samnings um bann við slíkum tilraunum 1963. Þótt langt sé um liðið, þá er skilningur á dreifingu þessara efna enn mikilvægur því þessar sprengingar eru meginuppruni manngerðra geislavirkra efna á flestum svæðum jarðar (náttúruleg geislavirk efni er einnig alls staðar að finna).  Rannsóknir á hegðun manngerðra geislavirkra efna í umhverfinu byggjast á að vitað sé hversu mikið af efnum barst þangað og hvenær.  Ef kjarnorkuslys verður og meta þarf efni sem berast frá því, þá er einnig nauðsynlegt að vita hversu mikið af efnum var fyrir í umhverfinu.

Megin niðurstaða rannsóknarinnar sem nú er kynnt er að skýra megi úrfelli geislavirkra efna (t.d. strontín-90 og sesín-137) að miklu leyti með tveimur þáttum, úrkomu og hnattstöðu, þ.e. breiddargráðu.  Vensl við þessa þætti voru kunn, hér er hins vegar beitt tölfræðilegum aðferðum til að leggja mat á hvernig best sé að láta þessa þætti lýsa úrfellinu og til að leggja tölulegt mat á áhrif hvors þáttar.  Einnig kom í ljós að geislavirkt úrfelli stendur ekki í réttu hlutfalli við magn úrkomu eins og flestir hafa miðað við.  Úrfellið verður ögn minna en gert hefur verið ráð fyrir þegar úrkoma er mikil, nær er að miða við að geislavirkt úrfelli sé í réttu hlutfalli við kvaðratrót úrkomumagnsins.

Við rannsóknina var stuðst við mikið magn gagna úr gagnasöfnum með mánaðarlegum mælingum frá stöðvum um alla jörðina.  Tvær þessara stöðva voru á Íslandi, önnur á Rjúpnahæð og hin á Keflavíkurflugvelli.  Rannsóknin var styrkt af Norrænum kjarnöryggisrannsóknum (www.nks.org), Háskóla Íslands og síðast en ekki síst Geislavörnum ríkisins.

Titill greinar er „A simple model to estimate deposition based on a statistical reassessment of global fallout data“ og er hún fáanleg ókeypis á Íslandi af Vefnum vegna landsaðgangs að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum.  Nálgast má greinina á eftirfarandi slóð:

http://dx.doi.org/10.1016/j.jenvrad.2012.03.006

Greininni fylgir einnig viðauki þar sem spágildi líkans eru borin saman við niðurstöður frá fjölda mælistöðva árin 1954 – 1976 fyrir strontín-90 annars vegar og sesín-137 hins vegar.

Önnur vísindagrein tengd þessu verkefni birtist nýlega, sjá frétt 23.2.2012

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Emil Pálsson, sep@gr.is