IAEA-merkiDagana 11. – 22. maí sl. var haldinn 5. endurskoðunarfundur alþjóðasamnings um öryggi við meðhöndlun notaðs eldsneytis kjarnaofna og geislavirks úrgangs. Yfir 700 fulltrúar 69 ríkja sem eru aðilar að samningnum funduðu í höfuðstöðvum IAEA í Vínarborg og fóru yfir skýrslur aðildarríkjanna um hvernig þau uppfylla kröfur samningsins (Mynd: D. Calma/IAEA).

Alþjóðasamningurinn um örugga meðhöndlum notaðs eldsneytis kjarnaofna og  geislavirks úrgangs, Joint Convention on the Safety of Spent Fuel Management and the Safety of Radioactive Waste Management, oftast nefndur JC samningurinn tók gildi 18. júní 2001. Íslands fullgilti JC samninginn í janúar 2006 og tók hann gildi gagnvart Íslandi í apríl 2006.

JC samningurinn er mjög víðtækur og spannar allt frá hágeislavirkum úrgangi frá kjarnorkuverum til reykskynjara í heimahúsum sem innihalda örlítið af geislavirku efni.

Aðildarríki JC samningsins skuldbinda sig til þess að uppfylla þær öryggiskröfur sem tilteknar eru í samningnum og gera grein fyrir því hvernig það er gert í skýrslum sem farið er yfir á endurskoðunarfundum samningsins en þeir eru haldnir á 3 ára fresti. Til að gera aðildarríkjum kleyft að leggja mat á skýrslurnar er gerð krafa um skil á skýrslum 7 mánuðum fyrir hvern endurskoðunarfund. Síðan hafa aðildarríkin 4 mánuði til að koma með skriflegar spurningar sem svara á skriflega innan mánaðar. Á endurskoðunarfundinum fara sérfræðingar aðildarríkjanna yfir skýrslurnar, spurningar sem þau hafa fengið og svör við þeim. Kemur þá iðulega til líflegra og jafnvel hvassra orðaskipta þegar fulltrúum eins ríkis finnst að fulltrúar annars ríkis gefi ekki fullnægjandi svör.

Notkun geislavirkra efna á Íslandi er lítil og mjög lítill geislavirkur úrgangur fellur til hér á landi. Endurskoðunarfundirnir gefa Íslandi mjög gott tækifæri til að gera grein fyrir meðhöndlun geislavirks úrgangs hér á landi og til að fá innsýn í hvað aðrar þjóðir með sambærilegar aðstæður gera.

Skýrslu Íslands fyrir 5. Endurskoðunarfund JC samningsins er að finna hér.

Glærur frá kynningu Íslands er að finna hér.

jc-5-rev-may-2015