Markmið samningsins um kjarnöryggi sem tók gildi 24. október 1996 er að stuða að auknu öryggi í kjarniðnaði um allan heim og draga þannig úr líkum á kjarnorkuslysum. Samningurinn leggur einnig áherslu á viðbúnað og viðbrögð við slíkum slysum. Gerðar eru bindandi kröfur til þeirra ríkja sem hann staðfesta og eru haldnir endurskoðunarfundir á þriggja ára fresti þar sem fjallað er um framkvæmd samningsins. Á þeim gera aðildarríkin grein fyrir með hvaða hætti þau uppfylla kröfur samningsins og svara spurningum annara ríkja þar um.

Ísland staðfesti samninginn í júní 2008 og er þannig eitt af 72 aðildarríkjum IAEA sem það hafa gert. Í umsögn um skýrslu Íslands kom fram að hérlendis hafi aldrei verið starfræktur kjarnakljúfur, að norrænt samstarf um viðbúnað og upplýsingamiðlun væri til fyrirmyndar og að vöktun geislavirkra efna í umhverfi og matvælum væri mjög skilvirk. Jafnframt var tekið fram að það væri mikilvægt fyrir Geislavarnir ríkisins að hafa hæft starfsfólk og hafa faglegt sjálfstæði til að hafa trúverðugleika á sínu sviði.

Kjarnorkuslysið í Fukushima setti mikið mark á fundinn og eru aðildarríkin nú að gera úttektir á öryggismálum í kjarniðnaði, sérstaklega þeim sem ytri atburðir svo sem náttúruhamafarir geta haft áhrif á. Ákveðið var að boða til sérstaks aukafundar samningsins í ágúst 2012 þar sem aðildarríkin eiga að gera grein fyrir viðbrögðum sínum við slysinu í Fukushima og lærdóm sem af því má draga. Þau aðildarríki samningsins sem ekki eru með kjarnorkuver eða annan kjarniðnað eiga að gera grein fyrir sínum viðbúnaði vegna kjarnorkuslysa í öðrum löndum.

 

03.05.2011

SMM