Geislavarnir ríkisins hafa á árinu 2009 unnið að frekari þróun gæðakerfisins með það að markmiði að einfalda verkferla en gæðakerfið nær til allrar starfsemi stofnunarinnar. Á árinu hafa orðið töluverðar breytingar í rekstrinum. Meðal annars var tekið í notkun nýtt skipurit í júní og skipt var um skjalavistunarkerfi og skjalalykil. Geislavarnir hafa frá árinu 2005 notað aðferðafræði BSC (Balanced Scorecard) við mælingar á árangri starfseminnar og hefur tekist vel að fella þennan þátt að nýju gæðakerfi.

9. desember 2009 var kerfið tekið út og vottað að nýju af bresku staðlastofnuninni, British Standard Institute, BSI. Nokkrar ríkisstofnanir hafa  innleitt gæðakerfi fyrir hluta starfsemi sinnar en fáar eða engar fyrir alla þætti.

Viðhald vottunar krefst stöðugrar þróunar og á þessu ári var helsta markmið hennar að einfalda alla verkferla og ná með því bæði að einfalda kerfið og bæta starfsemina. Í umsögn vottunaraðila segir m.a. að skjalastýring sé góð og að kerfið hafi verið einfaldað.

Úr skírteini: QMS is under good document control. Changes have been made to simplify the system and new system implemented to manage projects”.