Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, IAEA, hefur dreift eftirfarandi upplýsingum frá franska kjarnorkueftirlitinu (ASN). ASN hefur skýrt frá því að sprengingin hafi orðið í kjarnorkustöð Centraco í Codolet, nálægt Marcoule. Sprengingin varð í ofni sem er notaður við vinnslu á lággeislavirkum úrgangi, sem inniheldur aðallega geislavirka efnið kóbalt-60. Orsakir sprengingar eru enn ókunnar. Einn lést við sprenginguna og fjórir særðust, þar af fékk einn alvarleg brunasár.
Enginn starfsmannanna er sagður hafa fengið geislavirk efni á sig við slysið, engin slík efni hafi borist til umhverfis og slysið er sagt um garð gengið, úr þessu geti ekki komið til dreifingar efna til umhverfis.
Slysið virðist því í eðli sínu iðnaðarslys, þar sem hvorki orsakir né afleiðingar þess virðast snerta kjarnorku, geislavirk efni eða heilsufarslega áhættu af völdum geislunar. Mat geislavarnastofnana annars staðar á Norðurlöndum er svipað. Á vef sænsku geislavarnastofnunarinnar er sagt að orsök sprengingarinnar gæti verið að vatn hafi komist að við bræðslu brotajárns í ofninum. Áfram verður fylgst með fréttum af þessu slysi, en ekki er búist við að þær gefi tilefni til frekari frétta.
- Frétt sænsku geislavarnastofnunarinnar nú síðdegis: http://www.stralsakerhetsmyndigheten.se/Om-myndigheten/Aktuellt/Nyheter/Explosion-i-Frankrike–ingen-fara-for-omgivningen/
- Vefsetur ASN, franska kjarnorkueftirlitsins, með yfirlýsingu þess um slysið: http://www.french-nuclear-safety.fr/
Frétt uppfærð kl. 15:55
Sigurður Emil Pálsson, sep@gr.is