– já, nei og kannski! –

Á nokkrum árum hefur orðið gríðarleg aukning í notkun og notkunarmöguleikum farsíma. Ekkert bendir til annars en tækniþróun næstu ára muni enn auka notkunina. Samhliða þessu hefur orðið nokkur umræða um hvort notkun farsíma fylgi heilsufarsleg hætta og þá hvort farsímar séu beinlínis hættulegir. Hér á eftir verður leitast við að svara þeirri spurningu en svarið er já, nei og kannski.

 • Farsímar og örbylgjugeislun

  Farsímar hafa samband við móðurstöðvar sínar með því að senda og taka á móti örbylgjum, svipuðum þeim sem notaðar eru í örbylgjuofnum. Oft er talað um geislun frá símunum í þessu sambandi. Hafa þarf þá í huga að rafsegulrófið spannar vítt svið og þessi tegund geislunar hefur allt aðra eiginleika en sú geislun sem kölluð er jónandi geislun og kemur frá geislavirkum efnum og geislatækjum, svo sem röntgentækjum. Jónandi geislun hefur hærri tíðni og meiri orku en ljós og þar með meiri efnafræðileg áhrif. Líffræðileg áhrif jónandi geislunar eru vel þekkt, bæði af tilraunum og faraldsfræðilegum rannsóknum. Örbylgjugeislun hefur hins vegar lægri tíðni og minni orku en ljós. Orkan er of lítil til að hafa bein efnafræðileg áhrif. Hins vegar getur komið fram eins konar samhljómur (á ensku resonance) örbylgjugeislunar við efni, ef tíðni geislunar fellur saman við eiginsveiflutíðni sameinda efnisins. Þetta er t.d. nýtt í örbylgjuofnum, þar sem tíðni örbylgjugeislunar er samstillt tíðni vatnssameinda í fæðunni sem hita á.

 • Líffræðileg áhrif örbylgjugeislunar (eins og frá farsímum)

  Einu líffræðilegu áhrifin sem eru þekkt og almennt viðurkennd eru upphitun, svipuð því sem gerist í örbylgjuofni. Núverandi öryggisstöðlum fyrir farsíma er ætlað að tryggja að engin skaðleg áhrif vegna upphitunar geti komið fram hjá notandanum. Það er einkum höfuðið og þá sérstaklega augun sem eru viðkvæm vegna þess að í vökvarými augnanna eru ekki æðar til kælingar.

  Vísindamenn eru almennt sammála um að farsímar valdi ekki líffræðilegum skaða vegna upphitunar. Hins vegar er deilt um hvort önnur líffræðileg áhrif geti hugsanlega verið að verki, áhrif sem byggist á samhljómi sameinda við örbylgjugeislunina frekar en upphitun. Kenningar hafa verið settar fram um að það geti vel verið samhljómur við púlsatíðni sendingar frekar en við grunntíðni sjálfrar örbylgjugeislunarinnar. Enn er þó aðeins um umdeildar kenningar að ræða.

  Þau líffræðilegu áhrif sem komið hafa fram í sumum rannnsóknum eru umdeild. Í fyrsta lagi er deilt um hvort um vensl við örbylgjugeislunina sé að ræða, í öðru lagi er deilt um hvort skýra megi slík vensl með öðrum samverkandi þáttum ef þau eru fyrir hendi. Sem dæmi má nefna að notkun á farsíma í órólegu umhverfi krefst einbeitingar af hálfu þess sem talar í símann auk þess sem margir stífna í hálsi þegar þeir nota farsíma. Streita í vöðvum vegna farsímanotkunar gæti orsakað höfuðverk.

  Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa ekki sýnt fram á nein marktæk tölfræðileg tengsl á milli notkunar farsíma og heilsukvilla. Hins vegar koma óbein áhrif greinilega fram, sérstaklega áhrif á öryggi í umferðinni. Ýmsir hafa talið að leysa mætti vandann með því að nota handfrjálsan búnað. Rannsóknir benda til þess að svo sé ekki. Símtal í GSM síma krefst mun meiri einbeitingar en venjulegt samtal. Í venjulegu samtali eru það ekki einungis orðin sem skipta máli, heldur öll framkoma þeirra sem talast við. Í símtali í farsíma verður heili þess sem talar að reiða sig algjörlega á þau orð sem berast, oft með rýrum tóngæðum og í órólegu umhverfi (t.d. í umferðinni). Hætt er því við að athyglin beinist meira að símtalinu en umhverfinu. Rannsóknir hafa sýnt að ökumenn sem tala í farsíma eru margfalt líklegri en ella til að lenda í árekstri á meðan símtali stendur eða skömmu á eftir.

 • Mælingar á útgeislun frá farsímum og áhrifum hennar

  Mat á útgeislun frá farsímum getur verið flókið, sérstaklega vegna þess að enn er óvíst hvaða áhrif sé mikilvægast að reyna að meta. Erfitt er að setja marktækar viðmiðunarreglur um mælingar á meðan óvíst er hvort örbylgjugeislun frá símum hafi líffræðileg áhrif og hver þau þá eru. Notkun á handfrjálsum búnaði flækir matið enn frekar. Ýmsar mælingar hafa gefið til kynna að bylgjur geti borist út eftir leiðslunni og hún þannig verkað sem aukaloftnet. Hversu mikið afl berst út frá leiðslunni getur hins vegar verið mjög breytilegt eftir því hvernig leiðslan liggur. Líklegt er að draga megi verulega úr þessum styrk bylgjunnar sem getur borist eftir leiðslunni, þyki ástæða til þess.

  Í greinum um hugsanleg áhrif farsíma er oft vísað til stærðar sem kölluð er „SAR“. Hún er mælikvarði á hitaáhrif [W/kg] geislunar frá farsíma (en ekki magn útgeislunar frá símanum). Stærðin metur upphitun af völdum örbylgjugeislunarinnar og fyrir farsíma er þessi upphitun mun minni en vitað er til að geti haft nokkur líffræðileg áhrif. Ef í ljós kemur að örbylgjugeislun hafi líffræðileg áhrif af öðrum toga en varmafræðilegum, þá er líklegt að innleiða þurfi nýja matsstærð til að lýsa þeim áhrifum.

 • Lokaorð

  Notkun farsíma í umferðinni er hættuleg vegna þess að hún dregur athyglina frá akstrinum og eykur hættu á árekstri. Niðurstöður umfangsmikilla rannsókna gefa ekki til kynna skaðleg heilsufarsleg áhrif á fullorðið fólk vegna geislunar frá farsímum. Það eru þó vísbendingar um að geislunin geti haft óljós líffræðileg áhrif m.a. á ákveðna þætti heilastarfseminnar en svar við því hvort þau áhrif eru skaðleg eða ekki krefst frekari rannsókna. Vegna þessa getur verið rétt að viðhafa ákveðna varúð, sérstaklega gagnvart börnum og unglingum innan 16 ára aldurs, þannig að þau noti ekki farsíma að nauðsynjalausu. Aðrir sem hafa áhyggjur af hugsanlegri heilsufarshættu af farsímanotkun geta beitt sömu varúð og notað þá sjaldnar og skemur.

  Frekari fróðleik um geislum frá farsímum má m.a fá á eftirtöldum heimasíðum:

  Sænsku geislavarnastofnunarinnar
  Breska geislavarnarstofnunin
  Alþjóða heilbrigðismálastofnunin
  mjög ítarleg skýrsla opinberrar breskrar nefndar frá maí 2000
  auk tenginga frá heimasíðu Geislavarna ríkisins