madur-ad-tala-i-simannBirt hefur verið nýtt álit vísindanefndar Evrópusambandsins um nýgreinda og vaxandi heilbrigðisáhættu (SCENIHR) um áhættu af völdum rafsegulsviða. Vísindanefndin leggur þar mat á viðeigandi vísindaleg gögn, greinir heildarniðurstöður og tekur afstöðu til þeirra með tilliti til almannaheilsu.

Ensk útgáfa af þessum texta er aðgengileg hér og einnig má lesa meira um álitið hér.

Textinn hér fyrir neðan er byggður á þessu áliti, en það var birt í mars 2015.

 

Hvað eru rafsegulsvið?

Hlaðnar agnir sem standa kyrrar, hreyfast eða snúast mynda rafsegulsvið. Rafsegulsvið koma fyrir í náttúrunni og eru ekki nýleg uppfinning manna. Þau eru ósýnileg en minna þó á sig í eldingum og hreyfingum nálar í áttarvita. Rafsegulsvið fylgja notkun rafmagnstækja. Hin stóraukna notkun slíkra tækja, þar á meðal notkun farsíma, rafmagnshitunar og þráðlausra neta hefur leitt fram spurningar um hvort geislun frá rafsegulsviðum geti skaðað heilsu fólks.

Eru til mismunandi rafsegulsvið?

Hér er fjallað um rafsegulsvið sem hafa lægri tíðni en ljóstíðni, á ensku eru þau skammstöfuð EMF.  Hugtakið rafsegulsvið nær hinsvegar frá stöðugum sviðum og lágum tíðnum til sýnilegs ljóss og röntgengeislunar. Þeim mun hærri sem tíðnin er, þeim mun styttri er bylgjulengdin.

Eru rafsegulsvið (EMF) hættuleg  heilsu manna?

Nýlegar vísindaniðurstöður staðfesta ekki að fyrir hendi séu skaðleg áhrif af geislun rafsegulsviða þegar þau eru neðan við það sem alþjóðlegir staðlar segja til um að styrk.

Einstakar rannsóknir hafa tengt rafsegulsvið frá farsímum við aukna hættu á krabbameinum í heyrnartaug og við heilaæxli.  Aðrar rannsóknir hafa hinsvegar ekki staðfest slík tengsl og í einni rannsókn er hvatt til varkárni við túlkun á slíkum tengslum og bent á þá staðreynd að tíðni heilaæxla hefur ekki aukist eftir að farsímanotkun hófst.

Fyrri rannsóknir gáfu einnig til kynna að tengsl væru á milli rafsegulsviðs og Alzheimer-sjúkdóms sem nýjar rannsóknir hafa ekki staðfest.

Faraldsfræðilegar rannsóknir tengja rafsegulsvið á mjög lágum tíðnum (ELF) frá háspennulínum við aukna tíðni hvítblæðis í börnum sem eiga heima nálægt þeim í langan tíma en hvorki hefur tekist að skýra þessa fylgni né renna frekari stoðum undir kenninguna með dýra- eða frumurannsóknum.  Enn sem komið er hafa vísbendingar um lífeðlisfræðilegar skýringar á þessari mögulegu tengingu ekki fundist.  Frekari rannsókna er þörf til að staðfesta eða útiloka orsakasamband þarna á milli.

Getur fólk verið sérstaklega næmt fyrir rafsegulsviðum (EMF)?

Sumt fólk rekur ýmis einkenni, svo sem höfuðverk, svefntruflanir og þreytu, til rafsegulsviða. Þótt sjúkdómseinkennin séu raunveruleg eru engar afgerandi vísindalegar sannanir fyrir því að nein þessara einkenna séu af völdum rafsegulsviða.

Er geislun rafsegulsviða í umhverfi okkar stöðugt að aukast

Ekki endilega.  Jafnframt því sem uppsprettum rafsegulsviðs fjölgar þá nota ný tæki, t.d. farsímar,  yfirleitt mun veikara rafsegulsvið en eldri. Þetta gæti þýtt að rafsegulsvið fari í raun minnkandi. Hvað sem því líður er augljóst að það fer töluvert eftir lífsstíl og staðsetningu hversu mikil geislun er á hvern einstakling.

Samantekt um álit vísindanefndarinnar

Vísindanefndin stýrir ekki vísindarannsóknum, en leggur mat á viðeigandi vísindaleg gögn, greinir heildarniðurstöður og tekur afstöðu til þeirra með tilliti til almannaheilsu.  Ítarleg athugun á öllum nýlegum gögnum sem máli skipta hefur ekki leitt í ljós sannfærandi rök fyrir því að rafsegulsvið séu hættuleg heilsu manna. Þó er þörf á áframhaldandi rannsóknum, sérstaklega varðandi langtíma dvöl í rafsegulsviði og mögulega áhættu vegna sviða frá mörgum uppsprettum.