Skýrslan hefur orðið tilefni nokkurrar fjölmiðlaumfjöllunar í Bretlandi, t.d. í The Times, The Independent og The Guardian (í leiðara og grein).

Í skýrslunni er lagt mat á niðurstöður margra vísindarannsókna sem birst hafa síðan svonefnd Stewart skýrsla um farsíma og heilsufar kom út árið 2000.

Helsta niðurstaða Stewart skýrslunnar árið 2000 var að mat á þeim gögnum sem þá lágu fyrir benti ekki til að notkun farsíma hefði í för með sér skaðleg áhrif á heilsu þeirra sem þá nota. Áhersla var lögð á mikilvægi frekari rannsókna til að draga úr óvissuþáttum um langtímaáhrif sem og að vegna óvissunar væri rétt að gæta varúðar við notkun farsíma sérstaklega hvað varðar börn og unglinga.

Síðan Stewart skýrslan kom út árið 2000 hafa birst skýrslur sem gefa til kynna hugsanleg skaðleg áhrif farsímanotkunar á heilsufar. Erfitt hefur reynst að staðfesta slíkar niðurstöður.

Helsta niðurstaða nýju skýrslunnar er að ekki séu enn fyrir hendi neinar beinar sannanir um að notkun farsíma hafi skaðleg áhrif á heilsufar notenda en vegna óvissuþátta sem enn séu fyrir hendi um hugsanleg langtímaáhrif sé áfram rétt að gæta varúðar sérstaklega hvað varðar börn og unglinga. Áfram er lögð áhersla á mikilvægi frekari rannsókna m.a. vegna örrar tækniþróunnar og aukinnar og fjölbreytilegrar notkunar.

Segja má að nýja skýrslan undirstriki að ekki hafi enn tekist að eyða þeirri óvissu sem var árið 2000 um langtímaáhrif geislunar frá farsímum svo og að á sama tíma hafa komið fram nýjar vísbendingar um hugsanleg skaðleg áhrif hennar. Á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar fer nú fram stór alþjóðleg rannsókn á áhrifum notkunar farsíma á heilsufar notenda. Sú rannsókn gæti gefið mikilvægar niðurstöður á næstu árum.

Norrænar geislavarnastofnanir gáfu út sameiginlega yfirlýsingu um farsíma og heilsufar þann 21. september 2004, þar sagði m.a. Norræn geislavarnayfirvöld telja að engin vísindaleg sönnun hafi fengist fyrir skaðlegum heilsufarslegum áhrifum af farsímafjarskiptum, hvorki frá sendistöðvum né frá handtækjum, sem nota sendistyrk neðan viðmiðunarmarka og grunngilda sem Alþjóða geislavarnaráðið um ójónandi geislun (ICNIRP) hefur mælt með.

Í yfirlýsingunni var engu að síður mælt með að vegna óvissu um hugsanleg langtímaáhrif væri gætt ákveðinnar varkárni og dregið úr allri óþarfa geislun frá farsímum. Í þessu samhengi var mælt með notkun á handfrjálsum búnaði sem dregur umtalsvert úr rafsegulsviði nálægt höfði. Jafnframt var vakin athygli á því að þörf væri á frekari rannsóknum á hugsanlegum langtímaáhrifum af farsímanotkun.

Niðurstöður nýju skýrslunnar frá Geislavarnastofnun Bretlands gefa ekki tilefni til sérstakra aðgerða umfram það sem þegar hefur verið lagt til varðandi notkun á handfrjálsum búnaði og hóflega notkun farsíma.
Í ljósi stóraukinnar farsímanotkunar barna og unglinga er þó rétt að benda á að börn og unglingar geta verið viðkvæmari fyrir geislun frá farsímum en fullorðnir og því mæla Geislavarnir ríkisins með að farsímanotkun þeirra sé ekki meiri en nauðsyn krefur.

Geislavarnir ríkisins fylgjast grannt með þróun þessara mála og þeim rannsóknum sem fram fara á langtímaáhrifum farsímanotkunar.