Norræn geislavarnayfirvöld telja að engin vísindaleg sönnun hafi fengist fyrir skaðlegum heilsufarslegum áhrifum af farsímafjarskiptum, hvorki frá sendistöðvum né frá handtækjum, sem nota sendistyrk neðan viðmiðunarmarka og grunngilda sem Alþjóða geislavarnaráðið um ójónandi geislun (ICNIRP) hefur mælt með.

Á undanförnum árum hafa hópar sérfræðinga birt skýrslur með viðamiklu áhættumati vegna rafsegulsviða. Í stuttu máli hefur niðurstaðan jafnan orðið hin sama og hjá hinni bresku Stewart-nefnd árið 2000; Mat á þeim gögnum sem nú liggja fyrir bendir ekki til að geislun með útvarpsbylgjum sem er neðan viðmiða ICNIRP, hafi í för með sér skaðleg líffræðileg áhrif á almenning. Samt sem áður hafa birst skýrslur sem gefa til kynna að líffræðileg áhrif kunni að vera fyrir hendi neðan við ICNIRP viðmiðin. Þessar rannsóknir þarf að endurtaka og fylgjast þarf vandlega með vísindalegri þróun á þessu sviði. Mikilvægt er að hafa í huga að líffræðileg áhrif þurfa ekki að hafa skaðleg áhrif á heilsu fólks.

Þróun farsímatækninnar hefur verið ör og í dag nota 80-90% fólks á Norðurlöndum farsíma. Þar sem notkunin er þetta mikil gæti jafnvel mjög lítil áhætta haft afleiðingar fyrir heilsu almennings. Vel þekkt aðferð í áhættu-stjórnun er að draga úr eða koma í veg fyrir heilsuáhættu ef það er hægt á einfaldan hátt og jafnvel þótt vísindalegur grunur um hana sé veikur eða óviss. Í þessu samhengi telja Norræn geislavarnayfirvöld það vera skynsamlegt að nota t.d. handfrjálsan búnað sem dregur umtalsvert úr rafsegulsviði nálægt höfði. Upplýsingum um þetta ætti að beina bæði til fullorðinna, ungs fólks og barna. Mikilvægt er að foreldrar fræði ungt fólk og börn um ýmsar leiðir til að minnka rafsegulsvið frá farsímum.

Sjá texta samnorrænnar yfirlýsingar á vefsíðu Geislavarna ríkisins:

Mobile Telephony and Health – A common approach for the Nordic competent authorities