Um þessar mundir eru liðin fimm ár frá náttúruhamförunum þegar gríðarstór jarðskjálfti skók Japan og há flóðbylgja skall á landinu í kjölfarið. Af þessu hlutust sem kunnugt er skemmdir á kjarnorkuverinu í Fukushima Daiichi með alvarlegum afleiðingum fyrir samfélagið á staðnum, sem enn sér ekki fyrir endann á.

Flestir þeir sem fjalla um kjarnorkuöryggi eru sammála um að lærdómur sem draga megi af afleiðingum hamfaranna sé margvíslegur. Einkum sé brýnt að bæta öryggismenningu og leggja áherslu á vel útfærðar hönnunarforsendur, forvarnir og viðbragðsáætlanir sem geri ráð fyrir verstu hugsanlegum náttúruhamförum á hverjum stað. Þá þurfi áfallastjórnun að taka mið af samfélagslegum þáttum auk hinna tæknilegu, svo sem andlegri líðan og félagslegri stöðu einstaklinga sem og hagrænum og samfélagslegum afleiðingum fyrir samfélagið allt. Rök hafa t.d. verið færð að því að varhugavert geti verið að fyrirskipa rýmingu stórra svæða með tilheyrandi brottflutningi fjölda fólks vegna aukinnar geislunar, þar sem búferlaflutningar geti haft verri áhrif en lítillega aukin geislun.

Það má e.t.v. telja lán í óláni að ekki fór enn verr á svæðinu umhverfis Fukushima Daiichi kjarnorkuverið en raunin varð og þrátt fyrir að slysið teljist næstmesta kjarnorkuslys sögunnar hefur ekki orðið dauðsfall í kjölfar geislunar frá slysstað og raunar urðu bein áhrif geislunar fremur takmörkuð og eru fyrst og fremst staðbundin.

Ítarlega hefur verið fjallað um afleiðingar hamfaranna í fjölmiðlum æ síðan og fjöldi skýrslna um þær hefur verið gefinn út. Þar má m.a. nefna ítarlega skýrslu UNSCEAR (Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um áhrif kjarnorkugeislunar – United Nations Scientific Committee on the Effects of Atomic Radiation) um mat á magni og áhrifum geislunar í kjölfar slyssins (samantekt hér) og viðbót við hana frá 2015, einnig skýrslu IAEA um slysið (2015).

RÚV fjallaði um afleiðingar atburðanna í tilefni þess að 5 ár eru liðin frá því þeir urðu og má m.a. heyra viðtal við starfsmann Geislavarna hér.

(Mynd: Susanna Lööf, IAEA Office of Public Information and Communication)