Vinnuhópur um geislavarnir og kjarnorkueftirlit á vegum Eystrasaltsráðsins (WGNRS, Working Group on Nuclear and Radiation Safety, sjá einnig um hlutverk hópsins á vef Utanríkisráðuneytis) hefur starfað síðan 1992 en sæti í honum fyrir Íslands hönd skipar starfsmaður Geislavarna ríkisins. Eitt af hlutverkum hópsins er að standa fyrir samskiptaæfingum milli aðildarríkjanna en nú í október kom í hlut Íslands að annast framkvæmd slíkrar æfingar.

Allar aðildarþjóðir Eystrasaltsráðsins tóku virkan þátt í æfingunni en þær eru Danmörk, Þýskaland, Pólland, Litháen, Lettland, Eistland, Rússland, Finnland, Svíþjóð, Noregur og Ísland.

Tilgangur æfinga sem þessarar er að sannreyna að með skjótum og öruggum hætti megi koma á tengslum milli réttra yfirvalda ef viðbúnaðarástand kemur upp en ekki síður ef nauðsynlegt reynist að kveða niður falskan orðróm um slys eða óhapp þar sem t.d. kjarnorkuver eða geislavirk efni koma við sögu. Svörun í æfingunni var afar góð og höfðu viðbragðsaðilar í öllum löndum brugðist við innan klukkustundar þótt æfingin hafi verið framkvæmd utan skrifstofutíma.

Æfing þessi var haldin að Norrænni fyrirmynd en Geislavarnir ríkisins hafa um árabil haft samstarf við systurstofnanir á hinum Norðurlöndunum um sambærilegar samskiptaprófanir. Höfð var hliðsjón af stöðluðu tilkynningaformi IAEA (Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar) sem notað er við miðlun frumupplýsinga um kjarnorkutengd slys eða óhöpp og framkvæmd æfingarinnar var færð nær raunverulegu samskiptaformi en áður hefur tíðkast. Á fundi vinnuhópsins í Stokkhólmi 26.-27. október sl. kom fram að æfingin þótti takast vel og kom fundarmönnum ánægjulega á óvart hversu góð svörun var.