Verið er að draga fljótandi kjarnorkuver frá Sankti Pétursborg við Kirjálabotn áleiðis á áfangastað í Síberíu.

Kjarnorkuverið, Akademik Lomonosov, er byggt á pramma og siglir ekki fyrir eigin vélarafli heldur verður það dregið á áfangastað. Ekkert kjarnorkueldsneyti er um borð og stafar engin geislahætta af flutningnum, sem verður um Finnska flóa, Eystrasalt, Stórabelti og svo umhverfis Skandinavíuskagann. Lagt var af stað 28. apríl síðastliðinn og er gert ráð fyrir að flutningurinn til Murmansk taki um þrjár vikur ef allt gengur að óskum.

Til stendur að flytja kjarnorkuverið til nyrsta bæjar Rússlands, Pevek, þar sem það á að koma í stað Bilibino kjarnorkuversins sem verður lagt niður á næsta ári. Kjarnorkuverið er 145 metra langt og 30 metra breitt og vegur 21.500 tonn. Það getur séð 200.000 manna byggð fyrir raforku.

Í fyrsta áfanga verður kjarnorkuverið dregið til Murmansk án kjarnkleyfs eldsneytis. Þar verður eldsneytisstöngum komið fyrir. Áætlað er að kjarnorkuverið verði svo flutt á endanlegan áfangastað sumarið 2019. Kjarnaofnarnir um borð eru tveir og af sömu gerð og algengir eru í kjarnorkuknúnum ísbrjótum. Þeir þykja hafa reynst vel og teljast mjög öruggir.

Stjórnvöld í löndunum sem liggja nærri siglingaleiðinni munu fylgjast með flutningnum. Nánari upplýsingar má m.a. finna hjá Norskum og Dönskum stjórnvöldum.