Hér er fjallað um leysa og leysibenda, sbr. skilgreiningar í reglugerð nr. 171/2021. Til hægðarauka er orðið leysir hér notað um leysa og leysibenda. 

Leysum er skipt í flokka eftir áhættunni sem fylgir notkun þeirraHættan á skaða eykst með afli leysis en hún er einnig háð bylgjulengdinnitímanum sem geislað er, fjarlægð frá uppsprettu og eiginleikum eins og hvort leysigeislinn sé samfelldur eða púlserandi og hversu dreifður geislinn erFlokkuninni er lýst í evrópskum staðli IEC (International Electrotechnical Commission) ÍST-EN 60825-1 og byggir eftirfarandi umfjöllun á þeim staðli.  

Í Bandaríkjunum notar FDA (U.S. Food & Drug Administration) sams konar flokkun en nöfn flokkanna hjá FDA eru önnur. Samanburð á flokkun leysa hjá FDA og IEC má finna í töflu 2 aftast í þessari umfjöllun. 

Leysar sem eru ekki taldir geta valdið skaða við þá notkun sem þeir eru ætlaðir eru í flokki 1. Slíka leysa má nota í leikföng en ekki  gera ráð fyrir að leysar í leikföngum séu öruggir nema þeir hafi sérstaka merkingu um að vera í flokki 1 

Það á alltaf að vera merking á leysum með upplýsingum um hvaða flokki þeir tilheyra 

Leysar sem hafa það lítið afl að venjuleg varnarviðbrögð augans geta komið í veg fyrir skaða ef þeim er beint að auga í skamman tíma eru í flokki 2 (eða 2M). Leysibendar í þessum flokki mega vera á almennum markaði. Athug að leysibendar eru ekki leikföng.  

Leyfi þarf til notkunar á öllum öflugum leysum (flokkar 3B og 4) og öflugum leysibendum (flokkar 3B, 3R og 4) nema um sé að ræða tæki í læknisfræðilegri notkun eða notkun í fegrunarskyni, sjá nánar um kröfur til þess konar notkunar í reglugerð reglugerð nr. 171/2021. Öflugir leysar og leysibendar geta valdið alvarlegum skaða á augum og húð ásamt því að geta valdið íkveikju.   

Leysar og tæki með innbyggða leysa eiga að vera merkt með viðeigandi texta til útskýringar fyrir hvern flokk, ásamt viðvörunarskilti með mynd af leysigeisla. Að öðrum kosti má nota viðeigandi viðvörunarmerkingar fyrir hvern flokk en í töflu 1 eru dæmi um viðvörunarmerkingar og viðvörunartexta fyrir hvern flokk. Einnig eiga tækin að vera CE-merkt. 

Þess má geta að nákvæm flokkun á leysum eru flókin og því er aðeins stiklað á stóru í þessari umfjöllun. Ítarlegar upplýsingar um flokkunina er að finna í ofangreindum staðli ÍST-EN 60825-1. 

 

Flokkur 1 

Leysar í þessum flokki senda frá sér ljós sem ekki hefur nægilegt afl til að skaða augu. Tækin teljast því skaðlaus. Geislunin er neðan svokallaðra MPE-öryggismarka sem tiltekin eru í staðli ÍST-EN 60825-1. Leysar í flokki 1 mega vera í leikföngum. Sem dæmi má nefna að afl leysa í flokki 1 með rauðu sýnilegu ljósi er lægra en 0,39 mW en lægra en 0,039 mW ef ljósið er blátt.  

Tæki með innbyggða leysa geta verið í þessum flokki þótt þau noti aflmeiri leysi ef hann er skermaður, þ.e. að leysinum sé þannig komið fyrir að engin hætta sé á geislun í augu fólks við venjulega notkun. Þetta á til dæmis við um leysiprentara og geislaspilara. 

Flokkur 1M 

Leysar í þessum flokki eru skaðlausir augum því geislinn er það dreifður að aðeins hluti hans getur komist inn um sjáaldur augans. Slíkir leysar geta þó reynst skaðlegir ef horft er á geislann í gegnum stækkunargler, sjónauka eða álíka. Dæmi um þessa leysa má finna í sendum fyrir ljósleiðara. 

Flokkur 2 

Hámarksafl leysa í flokki 2 er 1 milliWatt (1 mW) og er ljósið frá þeim sýnilegt (bylgjulengd á milli 400 and 700 nm)Ósjálfráð viðbrögð manneskju eru að depla auga og snúa sér undan sterku ljósi og þessi viðbrögð gera leysa í flokki 2 hættulitla. Engu að síður getur verið skaðlegt að stara í geisla frá leysi í flokki 2 eða horfa viljandi og endurtekið í geislann.  

Margir leysibendar og strikamerkjalesarar eru í flokki 2. 

Flokkur 2M 

Líkt og leysar í flokki 2 hafa leysar í þessum flokki hámarksafl 1 mW og ljós frá þeim er sýnilegt (bylgjulengd á milli 400 and 700 nm). Geislinn er dreifður þannig að aðeins hluti hans fellur á sjáaldur augans. Slíkir leysar geta þó reynst skaðlegir ef horft er á geislann í gegnum stækkunargler eða álíka, eða í langan tíma. Sumir leysar sem notaðir eru til mælinga eru í þessum flokki.  

Flokkur 3R 

Afl leysa í þessum flokki er allt að 5 mW, ef um er að ræða bylgjulengdir á bilinu 400 – 700 nm. Geislunin getur farið yfir MPE-öryggismörk ef horft er beint í geislann og hún getur því verið skaðleg. Í flestum tilvikum er áhættan á að leysar í þessum flokki valdi skaða talin tiltölulega lág, m.a. vegna varnarviðbragða augans við sterku sýnilegu ljósi. Bandarískir leysar sem merktir eru IIIa tilheyra þessum flokki. Leyfi þarf til notkunar leysibenda i flokki 3R og tilkynna ber um innflutning leysibenda í þessum flokki. 

Flokkur 3B 

Leysar og leysibendar í flokki 3B geta verið með allt að 500 mW hámarksafl ef geislinn er samfelldur (ekki púlserandi) og bylgjulengdin er lengri en 315 nmHámarksaflið er annað fyrir aðrar bylgjulengdir og ef geislinn er púlserandi, sjá nánar í staðli ÍST-EN 60825-1Leysar og leysibendar í flokki 3B hafa nægilegt afl til að geta vald alvarlegum augnskaða með beinni geislun í auga (jafnvel í örskotsstund) og með endurvarpi af gljáandi fleti. Því meira sem aflið er, þeim mun meiri er áhættan. Leysar í þessum flokki eru þannig hættulegir augum en hafa einnig möguleika á að valda minniháttar húðskaða og jafnvel íkveikju í eldfimum efnum.  Leysar og leysibendar í flokki 3B eru m.a. notaðir við rannsóknir, tónleikahald og aðrar skemmtanir. Leyfi þarf til notkunar leysa og leysibenda í flokki 3B nema um læknisfræðilega notkun sé að ræða eða notkun í fegrunarskyni. Tilkynna ber um innflutning leysibenda í þessum flokki.   

Flokkur 4 

Leysar og leysibendar í flokki 4 eru aflmeiri en leysar í flokki 3B og engin efri mörk eru á aflinu. Þeir geta bæði valdið mjög alvarlegum skaða á húð og augum og jafnvel valdið íkveikju. Meira að segja dreift endurvarp (e. diffuse reflection) leysigeislans getur valdið skaða. Leysar í þessum flokki geta þannig verið mjög hættulegir Margir leysar sem notaðir eru við málmskurð og í skurðaðgerðum eru í flokki 4. Þessi flokkur leysa er líka stundum notaður við tónleikahald eða aðrar skemmtanir. Leyfi þarf til notkunar leysa og leysibenda í flokki nema um læknisfræðilega notkun sé að ræða eða notkun í fegrunarskyniTilkynna ber um innflutning leysibenda í þessum flokki.   

Tafla 1. Leysitæki eiga að vera merkt með viðeigandi viðvörunartexta til útskýringar (sjá dálk nr. 2), ásamt viðvörunarskilti með mynd af leysigeisla. Að öðrum kosti má nota viðvörunarmerkin sem sýnd eru í þriðja dálki.*  

Tafla 1. Leysitæki eiga að vera merkt með viðeigandi viðvörunartexta til útskýringar (sjá dálk nr. 2), ásamt viðvörunarskilti með mynd af leysigeisla. Að öðrum kosti má nota viðvörunarmerkin sem sýnd eru í þriðja dálki.

* The Icelandic Radiation Safety Authority  thanks the International Electrotechnical Commission (IEC) for permission to reproduce Information from its International Standards. All such extracts are copyright of IEC, Geneva, Switzerland. All rights reserved. Further information on the IEC is available from www.iec.ch. IEC has no responsibility for the placement and context in which the extracts and contents are reproduced by the author, nor is IEC in any way responsible for the other content or accuracy therein.
[1] IEC 60825-1 ed.3.0 “Copyright © 2014 IEC Geneva, Switzerland. www.iec.ch

Tafla 2. Samanburður á flokkun FDA og IEC frá vef FDA: https://www.fda.gov/radiation-emitting-products/home-business-and-entertainment-products/laser-products-and-instruments.

Tafla 2. Samanburður á flokkun FDA og IEC frá vef FDA: https://www.fda.gov/radiation-emitting-products/home-business-and-entertainment-products/laser-products-and-instruments.

Hlekkir á tengt efni:

Umsóknareyðublað um notkun öflugs leysis, leysibendis eða IPL tækis, ásamt tilkynningu á innflutningi.

Reglugerð um innflutning og notkun leysa, leysibenda og IPL-tækja.

Fræðsluefni um áhættur við notkun leysa, leysibenda og IPL-tækja.

Ýmsar fróðlegar upplýsingar um leysa og öryggisatriði við notkun þeirra er að finna á http://www.lasersafetyfacts.com/

Upplýsingar um flokkun leysa og mögulega skaðsemi: http://www.lasersafetyfacts.com/laserclasses.html

Ýmsar fróðlegar upplýsingar um ábyrga og örugga notkun leysibenda er að finna á http://www.laserpointersafety.com/